Bogi í 7-8.sæti á EM Junior
Evrópumeistaramót unglinga og U21 fer fram þessa dagana í Zürick, Sviss, þar sem Ísland á sex keppendur. Í dag var keppt í kata U21 og kata Junior. Bogi Benediktsson átti frábæran dag þegar hann endaði í 7-8.sæti í sínum flokki, kata Junior karla, en þess ber að geta að þetta er fyrsta Evrópumeistaramót Boga. Í flokknum hans voru 32 keppendur frá 32 löndum, en hver þjóð má einungis senda inn 1 keppanda í hverjum flokki. Í fyrstu umferð mætti Bogi Roman Heydarov, frá Azerbaijan, og vann Bogi þá viðureign örugglega 5-0 með kata sem heitir Enpi. Í annarri umferð mætti Bogi Slóvenanum Belmin Uzejnovic og framkvæmdi Bogi kata sem heitir Sochin sem færði honum 4-1 sigur. Í 8 manna úrslitum mætti Bogi Vefa Goktas frá Tyrklandi sem sigraði Boga sem og aðra andstæðinga í sínum flokki og mun Vefa keppa til úrslita í Kata Junior karla. Þar með var Bogi kominn með rétt á uppreisn og möguleika á að keppa um 3ja sætið. Í uppreisnarglímu mætti Bogi andstæðingi frá Andorra, Silvio Moreira, sem því miður lagði Boga. Bogi endaði því, eins og fyrr sagði, í 7-8.sæti í sínum flokki sem er frábær árangur hjá þessum bráðefnilega karatemanni.
Auk Boga keppti Svana Katla Þorsteinsdóttir í dag í kata kvenna U21. Í flokki Svönu voru 26 keppendur og mætti Svana Írsku stúlkunni Jean Kennedy í fyrstu umferð. Svana vann Jean örugglega með kata Annan og mætti því Nea Manty frá Finnlandi í 16.manna úrslitum, sú finnska hafði sigur þar en þar sem hún tapaði sinni viðureign í 8.manna úrslitum átti Svana ekki neinn möguleika á uppreisn til að keppa um 3ja sætið. Svana Katla endaði því í 9-16.sæti í sínum flokki.
Á morgun, laugardag, munu svo Edda Kristín Óttarsdóttir, Katrín Ingunn Björnsdóttir og Ólafur Engilbert Árnason keppa í sínum flokkum í kumite. Mótinu lýkur svo á sunnudeginum, þar sem Jóhannes Gauti Óttarsson keppir.