banner

Lög KAÍ

1. gr. Karatesamband Íslands (KAÍ) er æðsti aðili um öll karatemál innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ). Aðsetur þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr. Karatesamband Íslands er samband héraðssambanda, sem hafa iðkun karate innan sinna vébanda.
3. gr. Starf KAÍ er í meginatriðum:
a) Að hafa yfirumsjón allra íslenskra karatemála.
b) Að vinna að eflingu karateíþróttarinnar í landinu og koma fram erlendis fyrir hönd hennar.
4. gr. Málefnum KAÍ stjórna:
a) Karateþing.
b) Stjórn KAÍ.
c) Formannafundur aðildarfélaga KAÍ.
5. gr. Karateþing fer með æðsta vald í málefnum KAÍ. Þingið sitja fulltrúar frá íþrótta- og ungmennafélögum sem leggja stund á karate og eru aðilar að héraðssamböndum eða íþróttabandalögum innan vébanda ÍSÍ.
6. gr. Fulltrúafjöldi hvers félags fer eftir fjölda iðkenda sem greitt er fyrir til KAÍ. Hvert félag á minnst tvo fulltrúa á þinginu, mest átta.

1- 25 iðkendur 2 fulltrúar
26-50 iðkendur 4 fulltrúar
51-75 iðkendur 5 fulltrúar
76-100 iðkendur 6 fulltrúar
101-150 iðkendur 7 fulltrúar
151 eða fleiri iðkendur 8 fulltrúar

Félög, sem ekki hafa skráða iðkendur fá 2 fulltrúa á ársþingi ef vottorð frá viðkomandi héraðssambandi staðfestir að karate sé sannanlega iðkað í félaginu, eða deild ef sams konar vottorð kemur frá félagsstjórninni. Hvert héraðssamband og íþróttabandalag, þar sem stundað er karate, á rétt á einum fulltrúa.

7. gr. Þingið skal árlega haldið í janúar eða febrúar. Skal boða það rafrænt með eigi minna en eins mánaðar fyrirvara. Málefni sem sambandsaðilar óska að tekin verði fyrir á þinginu skal tilkynna stjórn KAÍ minnst 21 degi fyrir þingið. Þá skal stjórn KAÍ tilkynna sambandsaðilum dagskrá þingsins ásamt tillögum og lagabreytingum sem borist hafa í síðasta lagi 14 dögum fyrir þingið, sem síðara fundarboð. Karateþing er lögmætt ef löglega er til þess boðað.
8. gr. Á karateþingi hafa fulltrúar einir atkvæðisrétt, en auk þeirra eiga rétt á þingsetu og hafa þar málfrelsi og tillögurétt:

  1. Stjórn KAÍ, varastjórn og skoðunarmenn reikninga.
  2. Framkvæmdastjórn ÍSÍ.
  3. Fastráðnir starfsmenn KAÍ og ÍSÍ.
  4. Allir nefndarmenn KAÍ.
  5. Auk þess getur stjórn KAÍ boðið öðrum aðilum þingsetu, ef hún telur ástæðu til.

Aðeins sá sem er í félagi sem hefur karateiðkun á stefnuskrá sinni innan héraðssambands er kjörgengur fulltrúi þess á karateþingi. Hver fulltrúi hefur aðeins 1 atkvæði.
Þegar langt eða dýrt er að sækja þingið, eða annar fulltrúi veikist eða forfallast á síðustu stundu frá því að sækja þingið, þá má heimila að fulltrúi fari með fleiri en 1 atkvæði, en aðeins með atkvæði þess aðila, sérráðs eða héraðssambands sem hann er fulltúi fyrir. Þó gildir þessi undanþága ekki um fulltrúa þeirra aðila sem eiga heima þar sem þingið er háð. Umboð, sem jafnframt er beiðni til þingsins um að fulltrúi megi fara með fleiri en eitt atkvæði, verður að vera skriflegt og vera frá stjórn hlutaðeigandi sambandsaðila. Enginn þingfulltrúi getur farið með fleiri en 2 atkvæði.

9. gr. Störf karateþings eru:
1. Þingsetning.
2. Kosnir fastir starfsmenn þingsins:

  • 1. Þingforseti.
  • 2. Þingritari.
  • 3. Ávörp gesta.
    4. Heiðranir.
    5. Kosnar fastar nefndir:

    1. Kjörbréfanefnd.
    2. Fjárlaganefnd.
    3. Laga- og leikreglnanefnd.
    4. Allsherjarnefnd.
    5. Kjörnefnd.
      Nefndir þessar eru skipaðar 3 mönnum hver.

    6. Fráfarandi stjórn gefur skýrslu sína.
    7. Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga sambandsins til samþykktar.
    8. Stjórn leggur fram fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.
    9. Lagðar fram laga- og leikreglnabreytingar þær sem fram hafa komið.
    10. Lagðar fram aðrar tillögur og önnur mál sem borist hafa til stjórnar.
    11. Málum og tillögum vísað til nefnda til umfjöllunar.

    – Þ I N G H L É –

    12. Nefndarálit og tillögur og atkvæðagreiðslur um þær.
    13. Önnur mál.
    14. Kosning stjórnar, varastjórnar og skoðunarmenn reikninga.
    15. Kjörnir 5 menn í aganefnd og 3 til vara.
    16. Val fulltrúa á Íþróttaþing.
    17. Þingslit.

    Fái fleiri en þeir sem kjósa á jafnmörg atkvæði skal kjósa um þá á ný bundinni kosningu. Verði þeir enn jafnir ræður hlutkesti. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum, nema um lagabreytingar sé að ræða, þá þarf 2/3 hluta atkvæða viðstaddra fulltrúa. Þingið getur með 2/3 hluta atkvæða viðstaddra fulltrúa leyft að taka fyrir mál sem komið hafa fram eftir að dagskrá þingsins var send sambandsaðilum (skv. 7. gr. 3. mgr.).

    10. gr. Aukaþing má halda ef nauðsyn krefur eða helmingur sambandsaðila óskar þess. Boðunarfrestur til aukaþings skal vera 2 vikur. Fulltrúar á aukaþingi eru þeir sömu og voru á næsta reglulega þingi á undan, og gilda sömu kjörbréf. Þó má kjósa að nýju í stað fulltrúa sem er látinn, veikur eða fluttur úr héraðinu eða forfallaður á annan hátt. Á aukaþingi má ekki gera laga- eða leikreglnabreytingar og ekki kjósa stjórn, nema bráðabirgðastjórn ef meirihluti kjörinnar stjórnar hefur sagt af sér eða er hætt störfum af öðrum sökum. Að öðru leiti gilda sömu reglur og um reglulegt karateþing.
    11. gr. Formannafundur allra karatefélaga og karatedeilda innan KAÍ skal haldinn að hausti milli karateþinga. Til fundarins skal boða rafrænt með tveggja vikna fyrirvara. Fundurinn er löglegur ef löglega er til hans boðað. Formannafundur er ráðgefandi samkoma og er heimilt að álykta um málefni tengd starfsemi KAÍ.
    12. gr. Stjórn KAÍ fer með æðsta vald í málefnum sambandsins á milli þinga. Stjórn KAÍ skipa 5 einstaklingar: formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Skal kjósa bundinni leynilegri kosningu, formann fyrst, síðan meðstjórnendur, sem skipta með sér störfum. Kjósa skal 3 einstaklinga í varastjórn og taka þeir sæti í stjórninni ef aðalmaður forfallast og koma inn í sömu röð og þeir voru kosnir.
    Stjórn KAÍ skal strax að loknu ársþingi skipa eftirtaldar nefndir:
    Mótanefnd KAÍ, dómaranefnd KAÍ og landsliðsnefnd KAÍ.
    Hver nefnd skal skipuð minnst þremur mönnum. Stjórn KAÍ skal boða formenn nefnda á stjórnarfund þegar þurfa þykir eða formenn nefnda óska þess. Stjórninni er heimilt að ráða launað starfsfólk. Aðsetur stjórnar er í Reykjavík. Reikningsár KAÍ miðast við almanaksárið.
    13. gr. Kjörgengi til stjórnar og varastjórnar KAÍ hafa þau sem eru í félagi sem hefur karateiðkun á stefnuskrá sinni innan sambandsins og hafa náð 18 ára aldri. Framboðsfrestur til stjórnar og varastjórnar KAÍ rennur út tveimur vikum fyrir ársþing, náist ekki framboð til allra stjórnarsæta með 2 vikna fyrirvara má taka við framboðum á ársþingi til þess sætis eða þeirra sæta sem í vantar.
    14. gr. Starfssvið stjórnar KAÍ er:
    a) Að framkvæma ályktanir karateþings.
    b) Að vinna að eflingu karate í landinu.
    c) Að semja leikreglur og reglugerðir fyrir karate.
    d) Að senda sambandsstjórn og framkvæmdastjórn ÍSÍ lögboðnar skýrslur og tilkynningar.
    e) Að líta eftir því að lög og leikreglur KAÍ séu haldnar.
    f) Að setja nauðsynleg bráðabirgðaákvæði.
    g) Að raða niður og ákveða stað og tíma landsmóta. Tímasetningar móta skulu liggja fyrir í upphafi vor- og haustanna.
    h) Að úthluta þeim styrkjum til karate sem KAÍ fær til umráða.
    i) Að koma fram erlendis fyrir hönd karateíþróttarinnar í landinu.
    15. gr. Formaður KAÍ boðar stjórnarfundi og stjórnar þeim.
    16. gr. Deilumál er varða málefni KAÍ sem ekki er hægt að leysa úr á karateþingi, eða öðrum vettvangi á vegum KAÍ, skulu rekin fyrir dómstólum ÍSÍ.
    17. gr. KAÍ skal, í samráði við hlutaðeigandi héraðssambönd, vinna að stofnun nýrra sérráða.
    18. gr. Stjórn KAÍ hefur frjálsan aðgang að öllum karatemótum og sýningum sem fram fara innan vébanda KAÍ. Einnig á hún rétt á að sitja aðalfundi sérráða og héraðssamband sem eru aðilar að sambandinu.
    19. gr. Tillögur um að leggja KAÍ niður má aðeins taka fyrir á lögmætu karateþingi. Til þess að samþykkja þá tillögu, þarf minnst 3/4 hluta atkvæða. Hafi slík tillaga verið samþykkt skal gera öllum sambandsaðilum grein fyrir henni í þinggerðinni og tillagan síðan látin ganga til næsta reglulega þings. Verði tillagan þá samþykkt aftur er það fullgild ákvörðun um að leggja KAÍ niður. Skal þá afhenda ÍSÍ eignir KAÍ til varðveislu.
    20. gr. Lög þessi öðlast gildi þegar framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur samþykkt þau.
    Lög þessi öðluðust gildi 4. maí 1985 er þau voru samþykkt á Sambandsstjórnarfundi ÍSÍ.
    Síðast breytt á 36. Karateþingi, 19. febrúar 2023. Samþykkt af Framkvæmdastjórn ÍSÍ 10. júlí 2023