banner

Reglur um aganefnd

REGLUR UM AGANEFND KARATESAMBANDS ÍSLANDS.
Almennar reglur.
1. gr. Aganefnd skipa 5 menn kosnir af karateþingi til eins árs í senn og 3 til vara.

2. gr. Verkefni aganefndar er að úrskurða um kærur sem berast skriflega og þau atriði er fram kunna að koma á leikskýrslum dómara um karatemót, bæði mót sem mótanefnd KAÍ skipuleggur og önnur mót sem félög og sambönd innan KAÍ standa fyrir. Aganefnd getur einnig tekið upp mál sem hún telur heyra undir verksvið sitt. Kærur skulu hafa borist innan 14 daga frá umræddu broti annars telst það fyrnt.

3. gr Aganefnd ber að halda fund innan 2 vikna frá því að kæra berst með sannarlegum hætti til formanns nefndarinnar. Birta skal úrskurð nefndarinnar opinberlega á heimasíðu KAÍ innan 1 mánaðar frá því að úrskurðað hefur verið og hlutaðeigandi hefur verið birtur úrskurðurinn.
4. gr. Úrskurður aganefndar getur fjallað um brot leikmanna, félaga, forystumanna félags, héraðs eða sérráðs.

5. gr. Úrskurði aganefndar verður ekki áfrýjað, nema um sé að ræða leikbann sem er lengra en 1 ár. Þá getur sá sem fær slíkan dóm skotið máli sínu til viðkomandi dómstóls Íþrótta- og Ólympíusamtaka Íslands.

6. gr. Aganefnd getur heimilað munnlegan málflutning ef sérstök ástæða er til.

7. gr Brot leikmanna flokkast sem hér segir:
7.1 Óprúðmannleg hegðun á karatemóti.
7.2 Ódrengilegt atferli og/eða andstætt eðli karate.
7.3 Að láta sér um munn fara meiðandi ummæli um leikmenn, áhorfendur, dómara eða aðra starfsmenn – eða sýna þessum aðilum óprúðmannlega hegðun.
7.4 Að yfirgefa keppnisvöll um stund eða lengur án þess að hafa gildar ástæður.
7.5 Að beita keppanda, dómara, starfsmann móts eða áhorfanda ofbeldi.

8. gr Viðurlög vegna brota leikmanna flokkast þannig:
8.1 Ef leikmaður hefur gerst brotlegur við eitthvert af atriðum 7.1 – 7.4 án þess að hljóta áminningu dómara, eða ef leikmaður er í annað skipti á sama keppnistímabili áminntur af dómara vegna brota 7.1 – 7.4 án þess að vera vísað af leikvelli, skal aganefnd veita honum áminningu, munnlega eða skriflega.
8.2 Ef leikmanni er vísað af leikvelli fyrir brot á atriðum 7.1 – 7.4 getur aganefnd refsað honum með leikbanni um ákveðinn tíma og ef um endurtekin brot er að ræða getur leikbannið varað um lengri tíma.
8.3 Ef dómaranefnd hefur vikið leikmanni af keppnisvelli fyrir brot á atriði 7.5 skal honum refsað með leikbanni um lengri tíma. Ef um ítrekun er að ræða skal refsingin þyngd.
8.4 Teljist brotið mjög alvarlegs eðlis gæti refsingin orðið lífstíðarleikbann.

9. gr Brot félagsliða (eða sveita):
Heilt lið brýtur af sér ef það yfirgefur leikvöll í mótmælaskyni eða neitar að halda keppni áfram.
Refsing við því getur orðið brottrekstur úr keppni, stigatap, leikbann á öllum liðsmönnum liðsins (sveitarinnar).

10. gr Ef áhorfendur gerast sekir um vítaverða eða hættulega framkomu gagnvart keppendum, dómurum eða öðrum starfsmönnum, er heimilt að svipta lið (eða sveit) rétti til að halda áfram eða stigum, ef sannað er að þeir sem óspektunum valda séu félagsmenn liðsins eða áhangendur þess.

Samþykkt á 20. ársþingi KAÍ 3. febrúar 2007
Síðast breytt á 22. ársþingi KAÍ 14.mars 2009