banner

Íslandsmeistaramót

Almennar reglur.

1. gr. Íslandsmeistaramót í Karate skal vera fimmskipt, Kata og Kumite fullorðinna, Kata og Kumite unglinga og Kata barna. Framkvæmdaraðili skal vera Mótanefnd KAÍ. Félag sem sendir keppendur á mót á vegum KAÍ skal tilnefna nefndarmann í Mótanefnd KAÍ í upphafi keppnistímabils. Ef mótanefnd er ekki skipuð skal formaður KAÍ, varaformaður og gjaldkeri skipa nefndina.

2. gr. Íslandsmeistaramót fullorðinna í kata og Íslandsmeistaramót fullorðinna í Kumite haldið að vori. Íslandsmeistaramót unglinga og barna í Kata skal haldið í apríl eða maí ár hvert og Íslandsmeistaramót unglinga í Kumite skal haldið í október eða nóvember ár hvert. Ef sérstaklega stendur á getur mótanefnd eða stjórn KAÍ breytt mótstíma frá því sem að ofan greinir. Mótanefnd er heimilt að fela einstökum félögum að halda utan um framkvæmd einstakra móta, s.s. að útvega aðstöðu, starfsfólk o.s.frv.

3. gr. Tilkynna skal dagsetningu mótanna og dagskráratriði þeirra með minnst 14 daga fyrirvara á heimasíður KAÍ. Þátttökutilkynningar fara í gengnum Sportdata.org og lýkur skráningu 3 dögum fyrir mót, en þó getur mótanefnd ákveðið að hafa þann tíma annan. Greiðsla þátttökugjalda skal fara fram með bankamillifærslu á reikning KAÍ innan viku frá mótslokum.

4. gr. Þá daga sem Íslandsmeistaramótin fara fram má ekki stofna til annarrar opinberrar karatekeppni.

Starfsfólk.

5. gr. Á hverjum velli skulu vera tæknimaður, ritari og stigavörður. Tilnefna skal yfirdómara og mótsstjóra. Þeir sjá um að framkvæmd móts gangi hratt og vel fyrir sig. Á kumite mótum skal vera læknir, hjúkrunarfræðingur eða bráðatæknir til staðar. Starfsmenn skulu vera merktir eða í merktum fatnaði. Keppnissvæðið skal vera afgirt frá áhorfendum.

6. gr. Hvert þátttökufélag er skylt að tilnefna 1 starfsmann fyrir hverja 10 keppendur eða hluta af þeim fjölda og a.m.k. einn dómara með tilskilin réttindi viðurkennd af KAÍ fyrir hverja 5 keppendur eða hluta af þeim fjölda. Nýtt félag sem hefur þátttöku í mótum á vegum KAÍ hefur undanþágu í 3 ár til að útvega réttindadómara. Að þeim tíma liðnum skal félagið sektað eða vísað frá keppni ef það getur ekki uppfyllt skilyrði þátttökuréttar. Á Íslandsmeistaramótum barna- og unglinga skal hvert félag tilnefna liðsstjóra sem aðstoðar starfsfólk mótsins við að halda reglu á mótinu.

Keppendur.

7. gr. Keppendur á Íslandsmeistaramótum barna- og unglinga skulu vera komnir á mótsstað a.m.k. 30 mínútum áður en keppni hefst, en á Íslandsmeistaramótum fullorðinna skulu keppendur vera komnir á mótsstað a.m.k. 30 mínútum áður en keppni hefst í þeirra keppnisflokki. Sé Íslandsmeistaramót barna eða unglinga mjög fjölmennt getur mótanefnd skipt því upp í 2 hluta og þurfa þá keppendur að vera komnir á mótsstað a.m.k. 30 mínútum áður en keppni hefst í þeirra hluta. Til að öðlast þátttökurétt á kumite móti þarf að standast viktun í viðkomandi þyngdarflokki. Að jafnaði er viktað kvöld fyrir mót. Þeir sem ekki standast skráða þyngd færast í réttan flokk. Keppandi getur verið liðsstjóri á móti ef hann er skráður sem slíkur áður en skráningarfresti lýkur.

Keppnin.

8. gr. Dómaranefnd skal skipa aðaldómara á hverju móti. Í upphafi móts kallar aðaldómari saman aðra dómara, heldur dómarafund og skipar þá í stöður.

9. gr. Á Íslandsmeistaramóti fullorðinna í Kata skal keppt í eftirfarandi greinum:

Kata kvenna.
Kata karla.
Hópkata kvenna (3ja kvenna sveitir).
Hópkata karla (3ja manna sveitir).

Á Íslandsmeistaramóti fullorðinna í Kumite skal keppt í eftirfarandi greinum:

Kumite kvenna, -61 kg.
Kumite kvenna, +61 kg.
Kumite kvenna, opinn flokkur.
Kumite karla, -60 kg.
Kumite karla, -67 kg.
Kumite karla, -75 kg.
Kumite karla, -84 kg.
Kumite karla, +84 kg
Kumite karla, opinn flokkur.
Liðakeppni karla (3 manna sveitir).
Liðakeppni kvenna (3 kvenna sveitir).

Á Íslandsmeistaramóti unglinga í Kumite skal keppt í eftirfarandi greinum:

Kumite pilta 12 og 13 ára -50 kg*.
Kumite pilta 12 og 13 ára +50 kg*.
Kumite pilta 14 og 15 ára -63 kg*.
Kumite pilta 14 og 15 ára +63 kg*.
Kumite pilta 16 og 17 ára -68 kg*.
Kumite pilta 16 og 17 ára +68 kg*.
Kumite stúlkna 12 og 13 ára -47 kg*.
Kumite stúlkna 12 og 13 ára +47 kg*.
Kumite stúlkna 14 og 15 ára -54 kg*.
Kumite stúlkna 14 og 15 ára +54 kg*.
Kumite stúlkna 16 og 17 ára -59 kg*.
Kumite stúlkna 16 og 17 ára +59 kg*.

* ef fjöldi keppenda leyfir skiptingu.

Á Íslandsmeistaramóti unglinga í Kata skal keppt í eftirfarandi greinum:

Kata stúlkur 12 ára.
Kata stúlkur 13 ára.
Kata stúlkur 14 ára.
Kata stúlkur 15 ára.
Kata stúlkur 16 og 17 ára.
Kata piltar 12 ára.
Kata piltar 13 ára.
Kata piltar 14 ára.
Kata piltar 15 ára.
Kata piltar 16 og 17 ára.
Hópkata táninga 12 og 13 ára.
Hópkata táninga 14 og 15 ára.
Hópkata táninga 16 og 17 ára.

Á Meistaramóti barna í Kata skal keppt í eftirfarandi greinum:

Kata stúlkna 8 ára og yngri.
Kata stúlkna 9 ára.
Kata stúlkna 10 ára.
Kata stúlkna 11 ára.
Kata pilta 8 ára og yngri.
Kata pilta 9 ára.
Kata pilta 10 ára.
Kata pilta 11 ára.
Hópkata barna 9 ára og yngri.
Hópkata barna 10 og 11 ára.

Á meistaramótum barna og unglinga skal miðað við fæðingardag. Þar skulu keppendur hafa æft karate í 1. ár hið minnsta. Í hópkata skal sveit keppa í þeim aldursflokki sem elsti keppandi sveitar skyldi keppa í. Barnamótið er fyrir börn 11 ára og yngri en unglingamótið fyrir 12 til 17 ára. Lágmarksaldur keppenda á mótum fullorðinna skal vera 16 ára í kata og í þyngdarflokkum í kumite en 18 ára í opnum flokki í kumite og í liðakeppni í kumite, miða skal við fæðingardag. Tilgreina þarf nöfn þeirra keppenda sem taka þátt í hópkata eða liðakeppni í kumite og í hvaða liði viðkomandi er ef hans þátttökufélag sendir fleiri en eitt lið í viðkomandi grein. Notast skal við flaggadómgæslu á barnamótum í kata.

10. gr. Íslandsmeistaraverðlaun skulu vera fyrir 1. sæti, verðlaunagripur eða gylltur peningur, fyrir annað sæti silfurlitaður peningur og það þriðja bronslitaður peningur. Þegar keppt er eftir uppreisnarfyrirkomulagi er ekki keppt um 3ja sæti heldur skal veita tvenn bronsverðlaun. Ef keppendur eru 3 keppa allir við alla. Veitt eru gull, silfur og bronsverðlaun fyrir 1. – 3. sæti. Sigurvegari er sá sem hefur flesta bardagasigra. Ef tveir eða fleiri keppendur hafa sama fjölda sigra er sigurinn þess keppanda sem sigraði innbyrðisviðureign þeirra. Ef enn er jafnt sigrar sá sem hefur skorað flest stig úr bæði sigur- og tapbardögum. Íslandsmeistarar í sveitakeppnum fá auk þess til varðveislu farandbikar í eitt ár. Á meistaramótum barna og unglinga skal verðlauna það félag sem fær flest stig með farandbikar til varðveislu en einnig annan minni áritaðan til eignar.

11. gr. Á Íslandsmeistaramóti unglinga í kata mega keppendur í flokkum pilta og stúlkna, 13 ára og yngri, sýna sömu kata aftur. Það sama á við um keppendur á Íslandsmeistaramóti barna í kata. Ef keppendur eru þrír skulu allir keppa við alla. Keppa skal til úrslita til að ákvarða fyrsta og annað sæti en tveir keppendur geta verið í þriðja sæti. Ef ekki skrá sig til leiks fleiri en einn keppandi eða lið, fellur keppni niður í þeirri grein. Keppanda í einstaklingsflokki í kumite er þá heimilt að keppa í næsta þyngdflokki fyrir ofan.

12. gr. Í þeim tilfellum sem mótanefnd hefur ákveðið að hafa annan hátt á en um getur hér að ofan eða í alþjóðlegum reglum, þá skal félögunum tilkynnt það á liðsstjórafundi áður en mót hefst. Þar gefst tækifæri til að gera athugasemdir við framkvæmd móts.

Kærur, fundir, úrslit og skýrslur.

13. gr. Mótanefnd skal sjá um að fáanlegar séu skriflegar upplýsingar um úrslit mótsins, í vikunni eftir mótið. Úrslit skulu birt á heimasíðu KAÍ og á vefsíðu Sportdata.org.

14. gr. Mótanefnd er heimilt að sekta þau félög eða vísa frá móti, sem ekki senda starfsmenn, dómara eða liðsstjóra á mót samkvæmt reglum þessum. Sektir geta verið allt að fimmföld upphæð samanlagðs þátttökugjalds fyrir alla keppendur sem skráðir eru frá félaginu. Mótanefnd er heimilt að meina þeim félögum að taka þátt á móti er ekki uppfylla skilyrðin eða inna eigi sektir af hendi þegar þeirra er krafist. Sama er að segja um næsta eða næstu mót ef sektin er eigi greidd áður.

15. gr. Kærur varðandi agabrot á mótum skulu berast aganefnd KAÍ. Aðaldómara er skylt að gera skriflega skýrslu um þau agabrot, er hann verður var við og senda aganefnd innan 14 daga frá því að móti lauk. Öðrum dómurum á mótinu er skylt að tilkynna aðaldómara um slík brot, sem þeir verða varir við og skila skýrslu um þau til hans í mótslok. Í skýrslu um agabrot skal tilgreina nafn hins brotlega, félag, stað, tíma og í hverju agabrotið er fólgið, einnig skal nefna vitni ef einhver eru.

16. gr. Í úrslitum eftir mót er mótanefnd skylt að birta úrslit móts með stigagjöf félaga, þannig að félag fær 3 stig fyrir 1 sæti, 2 stig fyrir 2 sæti og 1 fyrir 3 sæti. Fyrir liðakeppni í kata og kumite skal reikna tvöföld stig fyrir hvert sæti.

17. gr. Að öðru leiti gilda reglur WKF um Íslandsmeistaramót KAÍ.

18. gr. Ef eitthvert félag óskar þess, þá skal halda fund á næstu dögum eftir mót, þar sem rætt er um úrslit, framkvæmd, kærur og úrbætur mótsins.

Samþykkt á 8. Karateþingi 19. mars 1991.
Síðast breytt af stjórn KAÍ 3. desember 2023.