Ólafur í 9-16.sæti á EM
Á öðrum degi Evrópumeistaramótsins í karate sem fer fram í Zürick, Sviss, þessa dagana kepptu 3 íslenskir keppendur. Ólafur Engilbert Árnason átti góðan dag í kumite karla Junior -68kg. Í fyrstu viðureign mætti Ólafur Diogo M. Gomes frá Andorra og vann Ólafur þá viðureign 2-1. Næst mætti hann Huseyn Aliyev frá Azerbaijan en sú viðureign fór 1-1 og var Huseyn dæmdur sigur með dómaraúrskurði, sem er beitt þegar viðureignir í einstaklingsflokkum enda með jafntefli. Þar sem Huseyn datt út í 8 manna úrslitum fékk Ólafur ekki möguleika á uppreisn og rétt á að keppa um 3ja sætið, endaði Ólafur því í 9-16.sæti á sínu fyrsta Evrópumeistaramóti, sem verður að teljast góður árangur. Edda Kristín Óttarsdóttir keppti í kumite Junior kvenna -53kg þar sem hún mætti í fyrstu umferð Francesca Hardcastle frá Englandi. Sú enska vann Eddu en datt síðan út í næstu umferð og því var keppninni lokið hjá Eddu. Auk þeirra keppti Katrín Ingunn Björnsdóttir í kumite Junior kvenna -59kg. Katrín keppti á móti Lizzy Klappe frá Hollandi í fyrstu umferð þar sem sú hollenska bar sigur úr býtum en féll svo úr keppni í næstu umferð á eftir og þar með var Katrín úr leik.
Á morgun, sunnudaginn 8.febrúar, mun Jóhannes Gauti Óttarsson keppa í kumite karla U21 -75kg.