Svana Katla með Gull og Silfur í Svíþjóð
Í dag laugardaginn 12.mars fór fram sterkt sænskt katamót í Stokkhólm, Swedish Kata Throphy. Ísland var með 13 keppendur á mótinu og stóðu þau sig öll vel. Um 400 keppendur voru á mótinu frá 8 löndum og þar af margir landsliðsmenn. Bestum árangri í dag náði Svana Katla Þorsteinsdóttir sem endaði með gull og silfur.
Svana katla Þorsteinsdóttir, Kristín Magnúsdóttir og Arna Katrín Kristinsdóttir byrjuðu daginn á að vinna Hópkata kvenna, þar sem þær unnu lið frá Karlastad Svíþjóð, þær stöllur munu keppa í Hópkata á næstkomandi Norðurlandameistaramóti. Í opnum flokki kvenna stóð Svana Katla sig best, vann fyrstu 3 viðureignar sínar örugglega, andstæðingarnir voru allar frá Svíþjóð. Svana Katla mætti Carola Casale frá Ítalíu í úrslitum, þar sem sú Ítalska hafði betur og fékk Svana Katla því silfur í opnum flokki kvenna. Kristín Magnúsdóttir tók svo bronsið í opna flokkinum, þar sem hún byrjaði á að vinna fyrstu 2 viðureignirnar, tapaði svo fyrir Carola í undanúrslitum en vann svo Olivia Wester frá Svíþjóð í viðureigninni um bronsið. Auk þeirra kepptu Arna Katrín Kristinsdóttir, Laufey Lind Sigþórsdóttir og María Helga Guðmundsdóttir í flokknum.
Í opnum flokki karla áttum við 5 keppendur, Elías Snorrason, Aron Breki Heiðarsson, Arnar Júlíusson, Bogi Benediktsson og Aron Anh Huynh, þeir áttu ekki góðan dag í flokknum og duttu út í fyrstu og annarri umferð.
Í flokki karla U21 áttum við 2 keppendur, Boga Benediktsson og Aron Breka Heiðarsson. Bogi stóð sig vel, vinn fyrstu 2 viðureignirnar og mætti Stefan Vasic Solna frá Svíþjóð í úrslitum, en þrátt fyrir góða útfærslu hjá Boga þá vann Stefan sigur og flokkinn. Aron Breki hafði mætt Stefan í undanúrslitum en beðið lægri hlut og fékk upp úr því bronsið í flokkinum.
Í flokki Junior karla, 16-17 ára, áttum við 2 keppendur Arnar Júlíusson og Aron Anh Huynh. Báðir duttu þeir út í fyrstu umferð. Það sama áttu við um keppendur okkar í Cadet karla, 14-15 ára, þá Aron Bjarkason og Viktor Steinn Sighvatsson, þeir hittu ekki á sínar bestu hliðar í dag.
Við áttum tvo keppendur í Junior kvenna, 16-17 ára, þær Örnu Katrínu Kristinsdóttur og Laufeyju Lind Sigþórsdóttur. Laufey datt út eftir fyrstu umferð en Arna vann sína fyrstu viðureign en tapaði svo í 8 manna úrslitum fyrir Carola Casale frá Ítalíu, þeirri sömu og vann fullorðinsflokkinn. Þar sem Carola fór í úrslit, fékk Arna uppreisn og réttinn til að keppa um 3ja sætið, í uppreisn vann hún fyrst Eva Le frá Svíþjóð en tapaði naumlega viðureigninni um bronsið fyrir Sara Salmivaara frá Finnlandi.
Í flokki cadets kvenna, 14-15 ára, áttum við einn keppenda Sigríði Hagalín. Sigríður mætti Lauren Fretwell frá Englandi í fyrstu umferð, Lauren vann viðureignina sem og aðrar viðureignir í flokknum. Þar með fékk Sigríður uppreisn en tapaði fyrstu viðureigninni í uppreisninni.
Þegar uppi var staðið þá fengum við 1 gull, 2 silfur og 2 brons, sem gefur okkur góðar vonir fyrir katalandsliðið í næsta verkefni þess sem er Norðurlandameistaramótið sem fer fram í Danmörku 9.apríl næstkomandi. Með keppendum í för var Magnús Kr. Eyjólfsson landsliðsþjálfari í kata, Ævar Östfjörð liðsstjóri og Helgi Jóhannesson sem dæmdi á mótinu.
Verðlaun í dag:
Gull í hópkata:, Svana katla Þorsteinsdóttir, Kristín Magnúsdóttir og Arna Katrín Kristinsdóttir
Silfur í kata kvenna: Svana katla Þorsteinsdóttir
Brons í kata kvenna: Kristín Magnúsdóttir
Silfur í kata 18-21árs: Bogi Benediktsson
Brons í kata 18-21árs: Aron Breki Heiðarsson
Á meðfylgjandi mynd má sjá hópinn, frá vinstri Magnús, Arna Katrín, Kristín, Bogi, Laufey Lind, Elías, Svana Katla, Aron Breki, Aron Anh, Viktor Steinn, María Helga, Aron, Arnar, Sigríður og Ævar.
Á efri myndinni má sjá verðlaunahafa dagsins frá vinstri, Kristín, Aron Breki, Svana Katla, Bogi og Arna Katrín.