banner

6 landsliðsmenn á Heimsmeistaramóti ungmenna

Á mánudag halda 6 landsliðsmenn í karate af stað til þátttöku á Heimsmeistaramóti ungmenna, 14 – 21 árs í karate, sem haldið er í Santa Cruz de Tenerife, Spáni 25. – 29.október.
Landsliðsfólkið er Ólafur Engilbert Árnason, Máni Karl Guðmundsson, Ágúst Heiðar Sveinbjörnsson, Aron Bjarkason, Aron Anh Ky Huynh og Iveta Ivanova.

Mjög góð þátttaka er á Heimsmeistaramótinu, 1710 keppendur skráðir frá 109 þjóðum. Margt af besta karatefólki heimsins tekur þátt í mótinu enda gefur þátttaka stig á heimslista WKF, Alþjóðlega Karatesambandsins, en stigahæstu einstaklingarnir geta unnið sér inn keppnisrétt á Ólympíuleika ungmenna, í Buenos Aires, Argentínu 17.-18. október 2018.

Miðvikudaginn 25. október keppir Aron Anh Ky Huynh í kata Junior en 52 keppendur eru skráðir til leiks í flokknum.

Fimmtudaginn 26. október keppa þau Iveta Ivanova í -53kg junior flokki í kumite (48 keppendur), Aron Bjarkason í -61 kg junior flokki i kumite (60 keppendur) og Ágúst Heiðar Sveinbjörnsson í -76 kg junior flokki í kumite (59 keppendur).

Föstudaginn 27. október er síðan keppt til úrslita í fyrrnefndum flokkum.

Sunnudaginn 29. október keppa þeir Máni Karl Guðmundson í -67kg U21 flokki í kumite (65 keppendur) og Ólafur Engilbert Árnason í -75kg U21 flokki í kumite (69 keppendur). Keppt er til úrslita þann dag. Mótinu líkur þá um kvöldið.

Á meðfylgjandi mynd má sjá keppnishópinn, frá vinstri Aron Anh, Máni Karl, Ágúst Heiðar, Aron og Iveta. Á myndina vantar Ólaf Engilbert sem er í Danmörku við æfingar.

About Reinhard Reinhardsson