banner

Frábær dagur á Central England Open

Íslenska landsliðið í karate átti frábæran dag í Worchester í dag er Central England Open var haldið í sjötta sinn.

Iveta Ivanova kom, sá og sigraði enn og aftur er hún tók gull í Junior flokki -59 kg í kumite, barðist fjóra bardaga og vann alla örugglega. Þetta er í annað sinn í röð sem Iveta tekur gull á mótinu en hún sigraði einnig fyrir tveimur árum.
Svana Katla Þorsteinsdóttir náði þriðja sæti í kata kvenna senior eftir æsispennandi keppni þar sem Svana tapaði einungis í undanúrslitum með naumasta mun.
Aron Huynh náði einnig þriðja sæti í kata karla senior eftir margar magnaðar viðureignir og er ljóst að Svana og Aron eru í góðum stað í undirbúningi sínum fyrir HM.

Nýliðinn Viktoría Ingólfsdóttir, sem valin var í unglingalandsliðið á dögunum, náði þriðja sæti í kumite flokki 12 til 13 ára eftir að hafa sigrað þrjá bardaga í röð og einungis tapað í undanúrslitum Cory Fital, sem er einn sterkasti keppandi í Evrópu í aldursflokknum.
Samuel Josh Ramos landaði einnig þriðja sætinu eftir harða keppni í Cadet flokki í kumite -63 kg. Samuel er nýkrýndur Smáþjóðameistari og hefur bætt sig mikið á árinu.
Ólafur Engilbert Árnason, átti sterka innkomu í -75 kg flokk kumite er hann náði þriðja sæti eftir fjóra bardaga, Ólafur er við æfingar í Danmörku og er í mjög góðru formi þessa dagana þar sem hann hefur einnig unnið sér sæti á HM.
Ólafur Engilbert, Máni Karl, Ágúst Heiðar og Iveta öttu kappi í kynjablandaðri liðakeppni (tveir karlar og ein kona) þar sem Íslenska liðið sigraði tvær viðureignir og kepptu til úrslita við CEWKA frá Skotlandi en Skotarnir náðu með naumindum að tryggja gullið í mjög jafnri viðureign. Iveta keppti upp fyrir sig en hún fékk sérstakt leyfi hjá skipuleggjendum að keppa í senior flokki, en Iveta er einungis 17 ára.
Ingólfur Snorrason, landsliðsþjálfari í kumite, og Pétur Freyr Ragnarsson, aðstoðarþjálfari, stjórnuðu landsliðinu og gekk keppnisdagurinn vel, það var mikið um annir þar sem nokkrir kepptu á sama tíma en dagurinn gerði mikið jafnt fyrir þá sem fengu verðlaun og einnig þá sem fengu reynslu.

About Reinhard Reinhardsson