Góður árangur á Bansai Cup, Berlín
Ingólfur, Ronja, Theodóra, Viktoría, Ólafur, Máni Karl, Iveta og Aron
Sjö liðsmenn úr landsliði íslands í karate kepptu í kumite á Banzai Cup í Berlín helgina 5.-6. október. Um 1.300 keppendur voru á mótinu og telst mótið nokkuð sterkt B-mót, þar sem bæði landslið og félagslið kepptu.
Ólafur Engilbert Árnason gerði sér lítið fyrir og sigraði í -75 kg flokknum en hann keppti við Van Dillan Moerkerk, Hollandi, í úrslitum eftir að hafa sigrað fjóra andstæðinga.
Aron Bjarkason sigraði einnig í -60 kg flokki keppenda undir 21 árs. Aron meiddist í úrslitunum og gat því ekki keppt í flokki Senior.
Máni Karl Guðmundsson tryggði sér þriðja sæti í opnum flokki, en þess má geta að Máni er einungis 67 kg og þurfti hann því að keppa við stærri og þyngri keppendur.
Iveta Ivanova náði þriðja sæti í bæði -55 kg undir 21 árs og -55 kg Senior, en flokkarnir voru mjög sterkir og sigraði Iveta m.a. Önnu Sokk, Eistlandi, en sú er fyrrverandi heimsmeistari unglinga.
Ronja Halldórsdóttir, Theodóra Pétursdóttir og Viktoría Ingólfsdóttir kepptu einnig í unglingaflokkum og áttu efnilega spretti, þó engin væru verðlaunin hjá þeim í einstaklingskeppninni, en þær stöllur nældu síðar í bronsverðlaun í liðakeppni unglinga.
Ingólfur Snorrason, landsliðsþjálfari í kumite var með í för.