banner

Formannafundur KAÍ 15. maí

Formannafundur Karatesambandsins var haldinn laugardaginn 15. maí í veislusal Breiðabliks, Smáranum, milli kl. 9.00 – 10.00.

Um 17 fulltrúar frá 10 karatefélögum og -deildum sóttu fundinn auk stjórnar KAÍ.

Formaður Karatesambandsins, Reinharð Reinharðsson, stýrði fundinum.

Helstu mál sem voru kynnt og rædd voru:

A) Starfsmaður KAÍ: Bjarni Ólafur Eiríksson, afreksstjóri.

Yfirumsjón með landsliðsverkefnum, afrekshópum, samskipti við afreksþjálfara og starfsmenn auk annarra verkefna. Starfið er í mótun.
Mun sjá um skráningu á erlend mót, panta flug og gistingu fyrir landslið og fylgdarmenn frá KAÍ. Gerir ferðaáætlun fyrir erlend mót.
Setur upp æfingaáætlun fyrir landsliðshópa í samstarfi við afreksþjálfara.
Verður tengiliður KAÍ við karatefélög og deildir. Sér um samfélagsmiðla KAÍ og frétttilkynningar tengdar landsliðsverkefnum.

B) Ný stefna í landsliðsmálum KAÍ.

Ráðnir verða landsliðsþjálfarar í kata og kumite í ákveðin landsliðsverkefni eða til styttri tíma í senn. Landsliðsþjálfarar munu sjá um æfingar og undirbúning fyrir ákveðin landsliðsverkefni. Flest ár eru 5 landliðsverkefni, HM, EM og EMU21, NM og Smáþjóðamót, tvö að vori og þrjú að hausti. Einnig verða 2-4 minni mót á dagskrá landsiðsins hvert ár sem eru til að öðlast reynslu erlendis.
Haldnar verða opnar æfingar í upphafi áætlunar og landsliðshópur valinn. Stefnt á að hafa æfingabúðir fram að erlendu verkefnunum frekar en fastar æfingar. Meiri áhersla lögð á að landsliðsfólk æfi í sínum félögum milli landsliðsverkefna.

Samningar við Helga Jóhannesson og Maríu Helgu Guðmundsdóttur renna út 31. maí næstkomandi.
Samningur við Halldór Stefánsson rann út 31. janúar síðastliðinn. Hann hefur lokið stöfum fyrir KAÍ.
Samningi við Ingólf Snorrason var sagt upp 30. apríl síðastliðinn og uppsögnin tekur gildi 30. júní.
Stjórn KAÍ hefur lýst því yfir að hún fari ekki fram á að hann vinni uppsagnarfrestinn.

Ráðnir verða nýir landsliðsþjálfara nú í sumar. Landsliðsnefnd er að störfum við það verkefni.

C) Opin erlend mót – klúbbamót.

Landsliðsnefnd í samvinnu við landsliðsþjálfara og eftir tillögur frá karatedeildum og -félögum mun undirbúa mótaáætlun fyrir næsta misseri um ferðir á erlend mót. Áætlað er að styrkja keppendur úr landsliðshópum og félagsþjálfara til þátttöku á erlendum mótum. Landsliðsnefnd mun leggja fyrir stjórn KAÍ fjárhagsáætlun fyrir næsta ár til samþykktar. Þar mun koma fram hve margir verða styrktir í ákveðin verkefni. Karatefélögin og – deildir geta sótt um að senda keppendur úr landsliðshópum og félagsþjálfara í ákveðin verkefni. KAÍ mun gera samning við 1-2 félagsþjálfara um að taka að sér undirbúning fyrir ferðina og greiðir fyrir þá flug og gistingu. Ferðin verður opin fyrir keppendur frá öllum karatefélögum og -deildum.

D) Mót innanlands.

Karatesambandið er ekki sterkara en félögin sem að því standa. Nú er svo komið að erfitt er að fá sjálfboðaliða til starfa á mótum á vegum sambandsins. Við undirbúning, á mótunum sjálfum og við frágang. Á Karateþingi fyrir nokkrum árum var samþykkt að öll karatefélög og -deildir þyrftu að tilnefna 1-2 virka starfsmenn í Mótanefnd KAÍ svo hægt væri að skipuleggja og hald mót innanlands. Nú er svo komið að einungis 4 meðlimir mótanefndar eru virkir. Við það ástand er ekki hægt að una. Stjórn KAÍ fer því fram á að þau karatefélög og -deildir sem ekki eru með virka meðlimi í mótanefnd tilnefni nýja sem allra fyrst. Að öðrum kost verður að fækka mótum á vegum KAÍ.

Einnig er viðvarandi dómaraskortur. KAÍ hefur staðið fyrir dómaranámskeiðum í kata og kumite á hverju ári. Öll karatefélög og -deildir verða að eiga réttindadómar og senda þá á mót á vegum KAÍ. Ef það gengur ekki, er næsta skref fyrir stjórn sambandsins að setja reglugerð um þátttökurétt á mótum á vegum KAÍ þar sem þau félög sem ekki eiga eða skrá ekki réttindadómara fá ekki að skrá keppendur á viðkomandi mót. Það er von stjórnar KAÍ að ekki þurfi að koma til þess.

About Reinhard Reinhardsson