banner

Þórður í 9. sæti á EM U21 í karate

Þórður Jökull Henrysson varð um helgina í 9. sæti á Evrópumeistaramóti ungmenna í karate í Finnlandi. Þórður keppti í kata karla 18–20 ára.

Í fyrstu umferð varð Þórður í 2. sæti af átta keppendum, með 23,14 í einkunn af 30 mögulegum fyrir kata Nipaipo, og tryggði sig örugglega áfram í 16 manna úrslit. Í þeirri umferð náði Þórður eilítið hærri einkunn, 23,16 fyrir kata Anan, sem dugði honum í 5. sæti í riðlinum. Fjórir efstu fóru áfram í átta manna undanúrslit, en aðeins 0,16 stig skildu Þórð frá sæti í undanúrslitunum. Fimmta sæti í riðlinum dugði Þórði því í 9. sætið í flokknum, sem er framúrskarandi árangur.

Í kata kepptu einnig þau Oddný Þórarinsdóttir í kata 16–17 ára stúlkna og Tómas Pálmar Tómasson í kata 16–17 ára pilta. Hafnaði Oddný í 29. sæti og Tómas Pálmar í 25. sæti í sínum flokkum.

Hugi hlutskarpastur Íslendinga í kumite

Hugi Halldórsson náði bestum árangri Íslendinga í kumite, bardagahluta karate, á mótinu. Hugi er nýorðinn 16 ára og keppti því í fyrsta sinn í flokki 16–17 ára pilta í +76 kg þyngdarflokki.

Hann vann sinn fyrsta bardaga gegn Kýpverjanum Demetris Demetriades. Hugi komst yfir 2–0 snemma í bardaganum eftir vel útfært síðuspark og leiddi síðan allan bardagann. Þótt Kýpverjinn næði að saxa forskotið niður í 2–1 með punktgefandi höggi dugði það ekki til og Hugi fór áfram í 16 manna umferð. Þar mætti hann Dananum Daniel Bruun Pedersen, sem vann Huga með talsverðum yfirburðum. Daninn féll síðan naumlega úr leik gegn Pólverjanum Hubert Jarocki, sem vann bronsið, og viðureignir Huga urðu ekki fleiri.

Tveir aðrir Íslendingar kepptu í kumite á Evrópumeistaramótinu, þau Iveta Ivanova í kvennaflokki 18–20 ára, –55 kg, og Samuel Josh Ramos í flokki 16–17 ára pilta, –68 kg. Hvorugt þeirra komst áfram úr fyrstu umferð.

Fyrsta mót nýrra landsliðsþjálfara

Evrópumeistaramótið var fyrsta mót nýrra landsliðsþjálfara Karatesambands Íslands, Maríu Helgu Guðmundsdóttur í kata og Sadik Aliosman Sadik í kumite. Til gamans má geta að nemandi Sadiks úr félagsliði hans í Stokkhólmi, Matilda Rosenlind, vann Evrópumeistaratitil í kumite U21 árs kvenna með sænska landsliðinu.

Keppendur og þjálfarar á EMU21

About Reinhard Reinhardsson