Frábær árangur á NM í karate
Landslið Íslands í karate sótti tvo Norðurlandameistaratitla og fern önnur verðlaun á NM í Stavanger í gær.
Hugi Halldórsson varð Norðurlandameistari í kumite 16–17 ára pilta, -76 kg flokki. Í fyrstu umferð mætti hann Ragnari Audse frá Eistlandi og vann hann örugglega, 4–0. Í undanúrslitum barðist Hugi við Lettann Aleksandars Obernihins. Eftir snarpa og skemmtilega viðureign bar hann sigur úr býtum, 5–4, og tryggði sér sæti í úrslitum. Þar mætti hann öðrum eistneskum landsliðsmanni, Karl Erik Meltsas. Ekki hafði hann roð við Huga frekar en landi sinn. Lokatölur urðu 4–0 og Norðurlandameistaratitill í höfn.
Hugi er fyrsti Íslendingurinn til að vinna Norðurlandameistaratitil í einstaklingskeppni síðan Jóhannes Gauti Óttarsson vann –70 kg flokk 14–15 ára pilta árið 2010. Þá er titill Huga aðeins sá þriðji í sögunni hjá Íslendingi í einstaklingsgrein. Fyrstur til afreksins varð Halldór Svavarsson í kumite karla –65 kg árið 1989. Þetta er sannarlega glæsilegur árangur hjá Huga, sem varð nýlega Íslandsmeistari í fullorðinsflokki aðeins 16 ára gamall.
Þá gerði kvennasveit Íslands í hópkata sér lítið fyrir og bætti við öðru gulli fyrir Ísland. Þær unnu öruggan sigur á liði Finna í úrslitum. Liðið skipa þær Freyja Stígsdóttir, Móey María Sigþórsdóttir McClure og Kristrún Bára Guðjónsdóttir. Ísland hefur einu sinni áður unnið Norðurlandameistaratitil í liðakeppni, þegar Aðalheiður Rósa Harðardóttir, Svana Katla Þorsteinsdóttir og Kristín Magnúsdóttir unnu flokkinn árið 2012.
Karlalið Íslands í hópkata varð svo aðeins 0,06 stigum (af 30 mögulegum) frá því að bæta þriðja gullinu í safnið. Liðið, skipað Huga Halldórssyni, Birni Breka Halldórssyni og Nökkva Benediktssyni, hlaut 22,8 stig fyrir framkvæmd sína á kata Kururunfa gegn 22,86 stigum Norðmanna í úrslitum og stóð uppi með silfur.
Þrír ungir og efnilegir keppendur í kumite unnu einnig bronsverðlaun í sínum flokkum, þau Alexander Rósant Harðarson í 14–15 ára flokki -63 kg, Davíð Steinn Einarsson í 14–15 ára flokki -57 kg og Ronja Halldórsdóttir í 16–17 ára flokki -59 kg.
Einnig náðu þau Ronja Halldórsdóttir, Björn Breki Halldórsson, Tómas Pálmar Tómasson, Ísabella María Ingólfsdóttir og Nökkvi Benediktsson 5. sæti í sínum flokkum.