Telma Rut á leið til Baku á Evrópuleikana
Telma Rut Frímannsdóttir lagði af stað í dag áleiðis á fyrstu Evrópuleikana sem haldnir eru í Baku, Azerbaijan. Það er mikill heiður fyrir Karatesamband Íslands að Telma Rut hafi fengið boð um að taka þátt í leikunum, þar sem einungis 8 einstaklingar fá þátttökurétt í hverjum keppnisflokki, einungis 1 frá hverju landi má keppa í hverjum flokki fyrir sig. Keppnin í karate fer fram 13-14.júní og keppir Telma Rut í kumite kvenna -68kg sunnudaginn 14.júní. Keppnin í karate er með nýju sniði á Evrópuleikunum, þar sem keppendum er skipt upp í tvo riðla, allir keppa við alla og 2 stigahæstu keppendurnir í hvorum riðli munu svo keppa í undanúrslitum. Keppendur fá 2 stig fyrir sigur og 1 stig fyrir jafntefli. Flokkurinn sem Telma Rut keppir í er mjög sterkur enda eru allir verðlaunahafarnir frá síðasta Evrópumeistaramótinu með henni í flokki, þar á meðal Evrópumeistarinn Alisa Theresa Buchinger frá Austurríki. Með Telmu í för er Gunnlaugur Sigurðsson landsliðsþjálfari.