banner

Góður árangur í Englandi

kai_2016_england_verdlaunSunnudaginn 9.október kepptu nokkrir landsliðsmenn á móti í Worcester Englandi, Central England open, sem var nokkuð sterkt mót. Árangur okkar fólks var með ágætum, 4 verðlaun og fjöldi viðureigna unnar.

Iveta Ivanova náði frábærum árangri er hún sigraði -54 kg flokkinn í 14 til 15 ára aldursflokki, sýndi Iveta mjög góð tilþrif og endaði sem öruggur sigurvegari síns riðils.   Embla Kjartansdóttir sigraði hinn riðilinn í sama aldursflokki og mættust Embla og Iveta í úrslitum, þar sem Iveta vann 1-0.  Frábær árangur hjá þessu ungu og efnilegu karatestúlkum. Í heildina voru 22 keppendur í þessum aldursflokki, margar hverjar landsliðstúlkur. Þær Iveta og Embla kepptu einnig í opnum flokki 14-45 ára, unnu sitt hvora viðureignina en duttu svo út, ekki var stuðst við uppreisnarkerfi í þeim flokki og því fengu þær ekki fleiri viðureignir.

Arna Katrín Kristinsdóttir komst í úrslit í +59 kg flokki 16 til 17 ára eftir mikla baráttu, þar sem Arna sýndi mikinn karakter.  Í undanriðlum mætti hún keppendum frá Englandi sem hún sigraði en í úrslitum mætti hún keppanda frá Alsír. Eftir mjög jafnan bardaga náði Alsírstúlkan stigi á Örnu og því endaði Arna í 2.sæti. Arna Katrín keppti einnig í opnum flokki en komst ekki áfram eftir fyrstu umferð.

Telma Rut Frímannsdóttir fékk risaverkefni í fyrstu umferð -61 kg flokki þar sem hún mætti Natalie Williams, landsliðskonu Englendinga (Natalie er núna í 29.sæti á heimslista WKF) og eftir harða baráttu sigraði Natalie á heimavellinum.  Natalie fór alla leið í úrslit í þessum flokki og því fékk Telma Rut fékk uppreisn þar sem hún endaði með að sigra 3ja sætið örugglega. Greinilegt er að Telma Rut er í fantaformi þessa dagana og lofar það góðu fyrir næsta verkefni hennar sem verður HM í Austurríki í lok mánaðar. Í opna flokknum fékk Telma Rut Natalie aftur og tapaði naumlega, ekki var uppreisnarkerfi  í opna flokknum og því var Telma úr leik.

Ólafur Engilbert sigraði fyrstu viðureignina í -75kg flokki en tapaði naumlega í þeirri næstu gegn enskum landsliðsmanni.  Ólafur meiddist lítillega og var ekki 100% er hann keppti um bronsið þar sem hann tapaði naumlega.  Flokkurinn var mjög sterkur á þessu móti, 16 keppendur m.a. frá Englandi, Skotlandi og Alsír.

Elías Snorrason keppti í Kata og sigraði fyrstu viðureign en tapaði 2-1 í þeirri næstu óverðskuldað að matri flestra. Andstæðingur hans datt út í næstu umferð og því fékk Elías ekki neina uppreisn.

Allir keppendur landsliðsins stóðu sig mjög vel, það er að verða til meira öryggi hjá þeim, meira traust á eigin getu og erum við á réttri leið. Með þeim í för var Ingólfur Snorrason landsliðsþjálfari í kumite.

Á meðfylgjandi mynd má sjá hópinn, frá vinstri Ingólfur, Ólafur, Arna, Iveta, Embla, Telma og Elías.

Á meðfylgjandi slóðum má svo sjá viðtöl við keppendur og myndir úr viðureignum þeirra.

About Helgi Jóhannesson