banner

Frábær árangur á Evrópumeistaramóti ungmenna

Fimm keppendur úr íslenska landsliðinu tóku þátt í Evrópumeistaramóti ungmenna í karate í Álaborg í Danmörku helgina 8.-10. febrúar.

Bestum árangri náði hinn 19 ára gamli Aron Anh Ky Huynh úr ÍR, sem keppti í kata 18–20 ára karla. Í fyrstu umferð gerði Aron kata Suparinpei, fékk 21,54 í einkunn og náði 4. sæti í erfiðum átta manna riðli. Efstu fjögur sætin komast áfram og Aron því kominn áfram í 16 manna umferð. Í annarri umferð bætti Aron um betur, gerði kata Anan og fékk heila 22,22 í einkunn sem skilaði honum 6. sætinu í riðlinum og 11. sæti í flokknum. Frábær árangur hjá þessum efnilega karatemanni, sem er á mikilli siglingu þessa dagana.

Aron í kata Suparinpai

Freyja Stígsdóttir, 16 ára karatekona úr Þórshamri, keppti í kata 16-17 ára stúlkna. Hún kom sterk inn í fyrstu umferð, fékk einkunn 21,74 fyrir kata Enpi og tryggði sér 4. sætið í riðlinum. Í næstu umferð gerði hún kata Kanku Sho og fékk 20,34 í einkunn. Hún lauk keppni í 15. sæti í sínum flokki, sem er afbragðs árangur á hennar fyrsta Evrópumóti.

Þá keppti Þórður Jökull Henrysson, 16 ára karatemaður úr Aftureldingu, í kata 16-17 ára pilta. Þórður gerði kata Nipaipo í fyrstu umferð og hlaut einkunnina 21,40 fyrir framkvæmdina. Hún skilaði honum 5. sæti í riðlinum, sem dugði ekki til að Þórður kæmist áfram. Hann varð þó aðeins 0,02 stigum á eftir næsta manni á undan og því hársbreidd frá því að komast í aðra umferð. Sterk innkoma hjá Þórði á hans fyrsta Evrópumót.

Í kumite 14-15 ára pilta, -63 kg flokki, keppti Samuel Josh Ramos úr Fylki. Samuel varð fyrir því óláni að veikjast á leið til Danmerkur og stóð þátttaka hans á mótinu mjög tæpt. Hann lét slag standa og keppti við Atma Awais frá Ísrael í fyrstu umferð. Sammi sýndi góða tilburði í viðureigninni en heilsan setti stórt strik í reikninginn og niðurstaðan varð 4-0 sigur Ísraelans.

Iveta Ivanova úr Fylki keppti í kumite 18-20 ára kvenna, -55 kg flokki. Þetta var fyrsta erlenda mót Ivetu í fullorðinsflokki, en hún varð 18 ára fyrr í mánuðinum. Iveta mætti Spánverjanum Taniu Fernandez Garcia í fyrstu umferð. Undir blálokin á jafnri viðureign náði Fernandez að skora eitt stig og niðurstaðan varð spænskur 1-0 sigur.

About Reinhard Reinhardsson