Stór karatehelgi í Salzburg
Iveta Ivanova átti sterka innkomu á Salzburg Karate-1, Series-A, í dag. Flestar af sterkustu karatekonum í heimi voru samankomnar á mótinu og voru 139 keppendur frá 39 þjóðum í -55 kg flokknum en Iveta er nýorðin 18 ára og því nýgræðingur í fullorðinsflokki. Iveta keppti við Aura Garcia, frá Spáni, og sigraði Iveta glæsilega 6-1. Í annarri umferð keppti Iveta við Tuba Yakana, frá Tyrklandi, og sigraði sú Tyrkneska 4-0. Yakan er feiknasterk, í 6. sæti á heimslista og því við erfiðan andstæðing að etja fyrir Ivetu. Yakan sigraði síðan næstu tvo bardaga og tapaði í undanúrslitum. Þar með lauk þátttöku Ivetu, sem má vel við una á sínu fyrsta Karate-1 móti.
Máni Karl Guðmundsson keppti í -67 kg flokki og í fyrstu umferð sigraði Máni Ondre Kriz, frá Tékklandi, 8-0 og í annarri umferð keppti Máni við Rory Kavanagh frá Írlandi. Þeir leikar fóru 2-1 fyrir Írann, sem hafði sigrað keppanda frá Egyptalandi í fyrstu umferð. Keppendur í flokknum voru 222.
Ólafur Engilbert Árnason átti einnig funheitan dag, en hann keppti í -75 kg flokki. Ólafur sat hjá í fyrstu umferð og keppti við Nemanja Brasanak, Svartfjallalandi, en hann hafði sigrað Ali Oukhrid frá Frakklandi í fyrstu umferð. Eftir æsispennandi viðureign sigraði Ólafur, 2-1, og komst þannig í þriðju umferð flokksins en þar beið Stanislav Horuna frá Úkraínu, einn sigursælasti keppandi síðustu ára, í 3. sæti á heimslista. Bardagi þeirra var mjög hraður og skemmtilegur en Horuna sigraði 3-0 og datt svo út í undanúrslitum eftir æsispennandi bardaga við Mohey El Sharaby, Ítalíu. Keppendur í flokknum voru 220.
Í gær keppti Svana Katla Þorsteinsdóttir í Kata, en keppendur voru 230, frá 57 þjóðum. Það var á brattann að sækja hjá Svönu en hún náði ekki í næstu umferð í sterkum 13 manna riðli með 20,48 stig. Keppt var eftir nýju fyrirkomulagi WKF þar sem sjö manna dómarahópur dæmir keppendurna með einkunnum.