Norðurlandameistaramótið í karate
Norðurlandameistaramótið í karate fer fram í Laugardalshöllinni helgina 13.-14. apríl næstkomandi. Flestallt færasta karatefólk Íslands og Norðurlandanna er skráð til leiks. Keppt er í einstaklings- og liðakeppni bæði í kata og kumite í aldursflokkum fullorðinna, kadetta (14-15 ára) og juniora (16-17 ára).
Ísland teflir fram fjölmennu liði 30 keppenda, þar á meðal öllum ríkjandi Íslandsmeisturum fullorðinna í kata og kumite. Karen Thuy Duong Vu á Norðurlandameistaratitil að verja í kumite -48 kg junior-stúlkna. Auk hennar unnu bæði Eydís Magnea Friðriksdóttir og Davíð Steinn Einarsson til verðlauna í fyrra og verður spennandi að sjá frammistöðu þeirra, en Eydís keppir bæði í kata og -68 kg kumite kvenna og Davíð Steinn í kumite -76 kg junior-pilta. Hugi Halldórsson vann Norðurlandameistaratitil í kumite juniora árið 2021 en keppir nú í -84 kg flokki karla og verður spennandi að sjá hann etja kappi við marga af reyndustu mönnum Norðurlanda. Þá snýr Ólafur Engilbert Árnason aftur í landsliðið eftir nokkurra ára hlé og keppir í -75 kg karlaflokki. Ólafur býr og æfir í Danmörku og varð Danmerkurmeistari í flokki sínum í haust og er því til alls líklegur.
Búast má við spennandi keppni um Norðurlandameistaratitil þjóða að þessu sinni, en hann er veittur þeirri þjóð sem vinnur flest verðlaun á mótinu. Undanfarin ár hafa Danir einokað bikarinn og eiga met yfir flesta sigra í röð. Danir mæta að vanda með sterkt og fjölmennt lið til leiks en búast má við að Svíar veiti þeim harða samkeppni, með keppendur á borð við Agnesi Nyman, Mathildu Rosenlind, Önnu-Johönnu Nilsson, Anthony Vu og Ricky Haag í fararbroddi, en þau eru öll í efstu 30 sætum heimslista í sínum flokkum og hafa barist um verðlaun á álfu- og heimsbikarmótum undanfarin misseri.
Landslið Íslands skipa:
- Adam Ómar Levi Ómarsson
- Arey Amalía Sigþórsdóttir McClure
- Aron Bjarkason
- Davíð Steinn Einarsson
- Eðvarð Egill Finnsson
- Embla Rebekka Halldórsdóttir
- Emilý Ngan Thien Nguyen
- Eydís Magnea Friðriksdóttir
- Fanney Andradóttir
- Filip Leon Kristófersson
- Gabríel Sigurður Pálmarsson
- Guðbjörg Birta Sigurðardóttir
- Guðmundur Týr Haraldsson
- Hugi Halldórsson
- Ísold Klara Felixdóttir
- Jakub Kobiela
- Karen Thuy Duong Vu
- Móey María Sigþórsdóttir McClure
- Natalía Ýr Hjaltadóttir
- Nökkvi Snær Kristjánsson
- Ólafur Engilbert Árnason
- Óskar Ingi Agnesar Gunnarsson
- Prince James Carl Caamic
- Ronja Halldórsdóttir
- Samuel Josh Ramos
- Samúel Týr Sigþórsson McClure
- Telma Rut Frímannsdóttir
- Tómas Már Jóhannsson
- Una Borg Garðarsdóttir
- Þórður Jökull Henrysson