banner

Ferðareglur

Reglur í keppnisferðum Karatesamband Íslands

Keppendur
1. Keppendur í ferð á vegum Karatesamband Íslands (KAÍ) skulu í hvívetna sýna góða hegðun, almenna kurteisi og vera landi og þjóð til sóma.
2. Keppendur skulu ávallt sýna íþróttamannslega framkomu jafnt utan sem innan vallar.
3. Keppendur skulu lúta þeim reglum sem fararstjórar og þjálfarar setja, enda miða þær að því að skapa góða ímynd, ná árangri og efla liðsheild.
4. Keppendur skulu umgangast ferðaföt KAÍ af virðingu.
5. Keppendur bera ábyrgð á persónulegum eigum sínum. Óski keppendur eftir að koma með dýr raftæki er það á þeirra ábyrgð en keppandi skal virða þá takmörkun á notkun á slíkum tækjum sem fararstjóri setur.
6. Keppendur, fararstjórar og þjálfarar skulu kappkosta að hafa heilbrigt líferni í fyrirrúmi á ferðalögum, þar með talið hvað varðar svefn og næringu.
7. Keppendum er bannað að neyta áfengis, tóbaks eða annarra vímuefna í keppnisferðum á vegum KAÍ. Íslensk lög gilda í keppnisferðum um neyslu ávana- og fíkniefna.
8. Keppendur skulu ávallt halda hópinn á meðan á ferð stendur nema með leyfi fararstjóra. Foreldrar/forráðamenn keppenda geta ekki tekið keppanda út úr hópnum, nema með leyfi fararstjóra.
9. Allir eiga að vera komnir í ró kl. 22 á kvöldin. Keppendum ber að ganga vel um gististaði á ferðum, ganga hljóðlega um og gæta þess að raska ekki ró annarra með hávaða og illri umgengni.
10. Einungis foreldrum sem eru fararstjórar er heimilt að gista á gististað keppenda.
11. Ef keppandi hefur einhverjar sérþarfir, s.s. hefur ofnæmi, er með svefnvandamál eða þarf að taka lyf skal fararstjóri látinn vita fyrir brottför.
12. Ef keppandi verður uppvís að broti á þessum reglum er heimilt að senda hann heim á kostnað keppandans.

Fararstjórar
1. Fararstjóri ber ábyrgð á sínum hópi og því skal hlýða honum.
2. Fararstjórar skulu almennt vera til fyrirmyndar varðandi hegðun og snyrtimennsku.
3. Fararstjóri ræður tilhögun ferðar.
4. Einungis er ferðast með landslið KAÍ í faratækjum með viðurkenndum öryggisbúnaði og skal fararstjóri sjá um að farið sé að settum reglum og slíkur búnaður notaður.
5. Fararstjórum og þeim sem aka með iðkendur í einkabifreiðum er óheimilt að neyta áfengis sólarhring áður en ferð hefst og þar til henni er lokið.
6. Fararstjórum, dómurum og þjálfurum er óheimilt að neyta tóbaks í ferð þannig að keppendur sjái.

Þjálfarar
1. Þjálfarar annast alla faglega þátt sem tengjast keppendum og keppninni sjálfri. Kynna keppendum skipulag keppni og æfinga og sjá til þess að þeir séu stundvísir. Þeir leita til fararstjóra ef þörf krefur.
2. Þjálfarar skuli ávalt vinna í samráði við fararstjóra, sem hefur lokaorðið ef kemur upp ágreiningur.
3. Þjálfari ber ásamt fararstjóra, ábyrgð á keppendum utan vallar sem innan, á ferðalagi sem dvalarstað. Saman skipuleggja þeir matartíma, frjálsan tíma, ferðalög og annað.
4. Þjálfari yfirfer búninga keppenda með góðum fyrirvara.
5. Þjálfarar skulu í framkomu sinni og athöfnum vera góð fyrirmynd keppendum.

Dómarar
1.Dómarar skulu með framkomu sinni og athöfnum skapa góða ímynd útávið.
2. Dómarar sem sendir eru á mót á vegum KAÍ, aðstoða þjálfara og fararstjóra með hópinn.

Almennt um ferðir á vegum Karatesamband Íslands
1. Leitast skal við að keppendur af sitt hvoru kyni gisti í aðskildu rými og að fararstjóri sem gisti með keppendum sé af sama kyni og þeir.
2. Landsliðsnefnd ákveður fjölda fararstjóra og skal taka mið af tegund ferðar, aldri keppenda, ferðareynslu, áfangastað og öðru sem gæti haft áhrif á fjöldann.
3. Leitast skal við að tilkynna um fyrirhugaða ferð erlendis með 2 mánaða fyrirvara.
4. Landsliðsnefnd annast skipulagningu og framkvæmd við undirbúning ferða KAÍ í samráði við stjórn. Reglur þessar eru settar til að stuðla að bættum liðsanda og svo öllum hlutaðeigandi aðilum sé ljóst hvert hlutverk þeirra og ábyrgð eru og skulu þær kynntar öllum keppendum, foreldrum og fararstjórum áður en haldið er í keppnisferð.

Samþykkt á karateþingi 24. febrúar 2018.