Telma Rut með brons á Swedish Karate Open
Á fyrri degi Swedish Karate Open, sem haldið er í Malmö, vann Telma Rut Frímannsdóttir til bronsverðlauna í kumite -61kg flokki. Í fyrstu viðureign tapaði Telma fyrir Stephanie Kaup frá Svíþjóð 6-4 sem endaði með því að vinna flokkinn og því fékk Telma uppreisnaglímu og tækifæri til að keppa um 3ja sætið. Í fyrra uppreisnarviðureigninni mætti Telma Michelle Jenson frá Danmörku í mjög jafnri viðureign sem endaði 4-4 og var Telmu dæmdur sigur með dómaraúrskurði. Í baráttunni um 3ja sætið mætti Telma Lydia Holler frá Þýskalandi. Telma lenti fljótt undir í viðureigninni og var staðan orðin 0-6 eftir um 1 mínútu, en bardaginn er 3 mínútur, og leit þetta ekki vel út um stundarsakir. En þá tók Telma sig til og saxaði jafnt og þétt á forskot Lydiu og á endanum vann Telma frábæran sigur 12-7, þar sem hún skoraði 11 stig áður en Lydia gat bætt 1 stigi við. Þetta var ein allra besta viðureignin sem sást í dag og ótrúlegur viðsnúningur sem Telma sýndi um miðjan bardagann.
Hjá öðrum keppendum var árangurinn bestur hjá Elíasi Snorrasyni sem keppti í kata karla, en í fyrstu viðureign tapaði hann fyrir sænska landsliðsmanninum Sam Biranvand sem að lokum vann flokkinn. Elías fékk þá uppreins og vann fyrri viðureign sína en í baráttunni um 3ja sætið í flokknum beið hann lægri hlut fyrir Love Örterström frá Svíþjóð. Kvennaflokkurinn í kata var mjög sterkur enda allar landsliðskonurnar frá Íslandi, Svíþjóð og Danmörku komnar til að hita upp fyrir Norðurlandameistaramótið sem verður 13.apríl næstkomandi, okkar stúlkum gekk ekki vel í þeim flokki.
Viðureignir íslenskra keppenda frá mótinu er að finna á YouTube síðu Karatesambandsins.