banner

Þrjú silfur og 8 brons á NM í karate

Keppendur og þjálfarar á Norðurlandameistaramótinu 2013 í karate í Osló, Noregi.

Keppendur og þjálfarar á Norðurlandameistaramótinu 2013 í karate í Osló, Noregi.

Íslenski landsliðshópurinn í karate vann til ellefu verðlauna á Norðurlandameistaramótinu sem fram fór í Ósló í dag. Kvennasveit Íslands tapaði naumlega í úrslitum í hópkata fyrir dönsku liði, og tókst því ekki að verja titil sinn.

Kvennasveitina skipuðu þær Svana Katla Þorsteinsdóttir, Aðalheiður Rósa Harðardóttir og Kristín Magnúsdóttir.

Yfir 200 keppendur frá sjö löndum voru skráðir til leiks á mótinu í ár. Íslenska hópnum gekk vel og vann til þriggja silfurverðlauna og átta bronsverðlauna.

Einna bestum árangri Íslendinganna náði Sindri Pétursson sem keppti í kumite cadet -61kg, en eftir að hafa unnið tvær viðureignir nokkuð örugglega mætti hann Dananum Chris Norskov Jensen í úrslitum. Það var erfið viðureign fyrir Sindra en Daninn vann á endanum og hlaut því Sindri silfur. Þess má geta að þetta er í fyrsta sinn sem Sindri tekur þátt í Norðurlandameistaramóti.
Verðlaunahafar dagsins á NM í Ósló.

Verðlaunahafar dagsins á NM í Ósló. Ljósmynd/KAÍ

Pétur Már Gíslason hlaut einnig silfur í kumite senior +84kg þegar hann mætti Philip Carlsen frá Danmörku sem hafði sigur, 4:2, eftir jafna viðureign.

Af öðrum sem áttu góðan dag, samkvæmt fréttatilkynningu Karatesambands Íslands, er helst að minnast á Pétur Rafn Bryde sem stóð sig mjög vel í erfiðum kumiteflokki, -84kg, er hann sigraði Victor Bull frá Svíþjóð nokkuð örugglega í baráttunni um 3. sætið.

Telma Rut Frímannsdóttir átti einnig góðan dag, en eftir að hafa unnið Hege Haavaldsen frá Noregi beið hún lægri hlut fyrir Michelle Jensen frá Danmörk 4:3 og fékk því 3. sætið í kumite -61kg flokki.

Davíð Freyr Guðjónsson sigraði fyrstu tvo andstæðinga sína í kata junior, en tapaði svo í undanúrslitum fyrir sænskum keppanda. Í viðureign um 3ja sætið vann Davíð svo Edijs Kirsons frá Eistlandi.

Hér má svo sjá yfirlit yfir verðlaunahafana í dag:

  1. Silfur í hópkata kvenna; Aðalheiður Rósa Harðardóttir, Kristín Magnúsdóttir, Svana Katla Þorsteinsdóttir.
  2. Silfur í kumite cadet -61kg; Sindri Pétursson
  3. Silfur í kumite senior +84kg; Pétur Már Gíslason
  4. Brons í kumite senior -84kg; Pétur Rafn Bryde
  5. Brons í kumite senior -67kg; Elías Guðni Guðnason
  6. Brons í kumite senior -67kg; Kristján Helgi Carrasco
  7. Brons í kumite senior -61kg; Telma Rut Frímannsdóttir
  8. Brons í kumite cadet -54kg; Edda Kristín Óttarsdóttir
  9. Brons í kata junior; Davíð Freyr Guðjónsson
  10. Brons í hópkata cadet/junior; Breki Guðmundsson, Davíð Freyr Guðjónsson, Heiðar Benediktsson
  11. Brons í sveitakeppni í kumite; Elías Guðni Guðnason, Jóhannes Gauti Óttarsson, Kristján Helgi Carrasco, Pétur Már Gíslason, Pétur Rafn Bryde

About Reinhard Reinhardsson