banner

Svana Katla og Elías bikarmeistarar

KAI_2015_Bikarmeistarar_Svana_EliasLaugardaginn 25.apríl fór fram þriðja og síðasta bikarmót vetrarins í karate, mótið var haldið í Smáranum, Kópavogi, í umsjón Karatedeildar Breiðabliks. Mikil spenna var fyrir mótið um hver yrði bikarmeistari í karla og kvennaflokki, en fyrir mótið var ljóst að nýr meistari yrði krýndur í karlaflokki þar sem bikarmeistari síðustu 5 ára, Kristján Helgi Carrasco, er í hvíld frá keppni þessa önnina.  Fyrir síðasta mótið voru Elías Snorrason, KFR, með 20 stig og Ólafur Engilbert Árnason, Fylki, með 18 stig.  Eftir þau þrjú mót sem mynduðu bikarmótaröðina þetta árið, stóð Elías Snorrason, KFR,  uppi sem sigurvegari og er því bikarmeistari karla í karate 2015, en þess má geta að Elías varð Íslandsmeistari í kata síðastliðinn marsmánuð.

Í kvennaflokki var ekki síðri spenna, sérstaklega þar sem bikarmeistari síðasta árs, Telma Rut Frímannsdóttir, Afturelding, var ekki með á fyrsta mótinu í haust og því ljóst að hún var talsvert eftir efstu konum að stigum.  Fyrir síðasta mótið var María Helga Guðmundsdóttir, Þórshamri, með 21 stig en Svana Katla Þorsteinsdóttir, Breiðablik, með 20 stig.  Þegar stigin voru talin við lok þriðja mótsins stóð Svana Katla uppi sem sigurvegari með 30 stig og er því bikarmeistari kvenna í karate 2015. Svana Katla varð tvöfaldur Íslandsmeistari í kata í marsmánuði síðastliðinum.

Seinna um daginn fór fram seinna Bushido bikarmótið sem er mótaröð fyrir 12-17 ára unglinga, þar sem keppt er í kata og kumite, skipt í aldursflokka.  Þau sem stóðu uppi sem sigurvegarar og Bushido bikarmeistarar eru;

Kata 12 ára barna, Máni Hákonarson, Afturelding
Kata 13 ára táninga, Viktor Steinn Sighvatsson, Fjölnir
Kata 14 ára táninga, Mary Jane P Rafael, Leiknir
Kata 15 ára táninga, Laufey Lind Sigþórsdóttir, Breiðablik
Kata 16-17 ára unglinga, Bogi Benediktsson, Þórshamar
Kumite drengja 12-13 ára  45 mínus, Máni Hákonarson, Afturelding
Kumite drengja 12-13 ára 45 plús, Hrannar Ingi Arnarson, Fylkir
Kumite pilta 14-15 ára, Ágúst Heiðar Sveinbjörnsson, Fylkir
Kumite pilta 16 og 17 ára, Ólafur Engilbert Árnason, Fylkir
Kumite telpna 12 og 13 ára, Iveta Ivanova, Fylkir
Kumite stúlkna 14 og 15 ára, Lilja Vigdís Davíðsdóttir, Fylkir
Kumite stúlkna 16 og 17 ára, Edda Kristín Ólafsdóttir, Fylkir
Kumite stúlkna 16 og 17 ára, Katrín Ingunn Björnsdóttir, Fylkir

 

About Helgi Jóhannesson