banner

Telma Rut í 7-8.sæti í Salzburg

KAI_Telma_Rut_Salzburg_2015Í dag var fyrri dagurinn á næst síðasta Heimsbikarmótinu sem fer fram í Salzburg, Austurríki.  Af íslensku keppendunum stóð Telma Rut Frímannsdóttir sig best þegar hún endaði í 7-8.sæti í kumite kvenna -68kg. Í fyrstu umferð mætti Telma Hanina Berrouba frá Hollandi og vann Telma 2-1, í næstu umferð vann Telma góðan sigur á Nora Evensen frá Noregi 3-0. Í 8 manna úrslitum mætti Telma hinni firnasterku Elena Quirici frá Sviss í mjög skemmtilegri viðureign, þar sem Elena náði einu stigi á Telmu undir lok viðureignar og vann þar með. Þess má geta að Elena vann til silfurverðlauna á síðasta Evrópumeistaramóti og er sem stendur í 10.sæti á heimslista WKF. Þar sem Elena tapaði í fjórðungsúrslitum fékk Telma Rut ekki uppreisn og endaði í 7-8.sæti í flokknum, Elena endaði í 3ja sæti í flokknum í dag. Í kumite kvenna -68kg keppti einnig Kristín Magnúsdóttir en hún tapaði fyrir Imane Hassouni frá Frakklandi í fyrstu umferð. Ísland átti einnig keppendur í kata kvenna í dag og kumite karla -75kg. Í  kata mætti María Helga Guðmundsdóttir Sandra Jaime Sanches frá sameinuðu Arabísku furstadæminu en Sandra vann Maríu Helgu sem og næstu 6 andstæðinga sína og stóð uppi sem sigurvegari í dag.  Þar sem Sandra fór í úrslit þá fékk María Helga uppreisn um réttinn til að keppa um 3ja sætið. Í fyrstu umferð uppreisnar mætti María Alexandra Feracci frá Frakklandi sem hafði betur á móti Maríu. Í kata kvenna kepptu einnig Kristín Magnúsdóttir og Svana Katla Þorsteinsdóttir, en báðar duttu út í fyrstu umferð, Kristín á móti Martina Russi frá San Marínó, en Svana Katla Veronika Miskova frá Tékklandi. Í kumite karla -75kg mætti Ólafur Engilbert Fabrizio Gelsomino frá Sviss í fyrstu umferð en beið lægri hlut 0-6, þar sem Fabrizio tapaði í næstu umferð þá var keppni lokið hjá Ólafi.

Á morgun, sunnudaginn 18.október, fer fram seinni dagurinn á Heimsbikarmótinu og þá munu Bogi Benediktsson og Elías Snorrason keppa í kata karla sem og María Helga Guðmundsdóttir í kumite kvenna -55kg.

About Helgi Jóhannesson