29. Karateþing
29. Karateþing haldið 27. febrúar 2016.
Karateþing var haldið laugardaginn 27. febrúar í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Um 30 fulltúar karatefélaganna á landinu tóku þátt í þingstörfunum. Gunnar Bragason, gjaldkeri ÍSÍ og Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, voru gestir á þinginu.
Nokkur mál lágu fyrir þinginu, Afreksstefna KAÍ fyrir 2016 – 2018, fjárhagsáætlun 2016 auk tillagna um ferðareglur, mót utan höfuðborgarsvæðisins, landsliðsmál, tölvuvæðingu mótahalds og um brotthvarf eldri iðkenda.
Nokkrar umræður urðu um Afreksstefnu KAÍ og tók hún nokkrum breytingum í umfjöllun allsherjarnefndar. Hún var síðan samþykkt með áorðnum breytingum. Aðrar tillögur voru samþykktar eftir umræður og nokkrar breytingar í nefndum og síðan vísað til stjórnar.
Ákveðið var að stefna að auknu mótahaldi utan höfuðborgarsvæðisins þar sem komin eru öflug félög sem rétt er að efla með því að bjóða þeim að halda mót heima í héraði. Í framhaldi af því að auka einnig útbreiðslustarf KAÍ.
Reinharð Reinharðsson var endurkjörinn formaður sambandsins og öll stjórnin var endurkjörin. Tveir nýir menn komu inn í varastjórn, Ævar Austfjörð og Valgerður Helga Sigurðardóttir.
Í þinghléi var undirritaður samningur við nýjan landsliðsþjálfara í kumite, Ingólf Snorrason, margfaldan íslandsmeistara og reyndan landsliðsmann í kumite.