banner

Góður árangur í Tékklandi

KAI_2016_Tekkland_verdlaunLaugardaginn 14.maí fór fram Opið Tékkneskt bikarmót „Czezch Karate Open Cup“ í borginni Ústí nad Labem í Tékklandi. Ísland átti fjóra keppendur á mótinu, það voru Iveta Ivanova, Ágúst Heiðar Sveinbjörnsson, María Helga Guðmundsdóttir og Telma Rut Frímannsdóttir. Öll áttu þau mjög góðan dag og urðu verðlaunin alls sjö talsins, þrjú gull, eitt silfur og tvö brons en einnig sigraði kvennasveit Íslands sterkt danskt lið í úrslitum liðakeppninnar og fékk Íslenska liðið þar með eitt gull í viðbót. Um 400 keppendur voru á mótinu meðal annars frá Tékklandi, Þýskalandi, Rússlandi, Danmörku, Svíþjóð auk Íslands.

Iveta keppti í cadet flokki kvenna og vann hann sannfærandi, vann báða sína andstæðinga nokkuð auðveldlega 10-0 og 6-0. Frábært hjá þessari ungu karatekonu. Ágúst Heiðar vann andstæðing sinn í 8 manna úrslitum glæsilega 3-0 en beið naumlega lægri hlut í undanúrslitum 2-3 og fékk því bronsið í kumite cadet.

Telma Rut átti mjög góðan dag endaði með 3 gull, vann þyngdarflokkinn sinn -61kg, opna flokkinn þar sem hún mætti rússneskri landsliðskonu í úrslitum en Telma Rut lagði hana eftir snarpa viðureign 4-1. María Helga fékk silfur í -61kg flokki, brons í opnum flokki en datt út í 2.umferð í kata.

Stúlkurnar kórónu svo daginn með því að sigra liðakeppni kvenna, í liðinu voru Telma Rut, María Helga og Iveta.  Athygli vakti að Iveta Ivanova keppti með íslenska liðinu í liðakeppni kvenna en Iveta er einungis fimmtán ára. Þar munaði um minna, Iveta sigraði lokaviðureignina í liðakeppninni 2-1 og tryggði Íslandi sigurinn gegn hinu sterka danska liði Team Holstebro.

Mótið var lokamót fyrir sumarfrí hjá landsliðinu og má segja að því hafi lokið með miklum hvelli, níu sigrar og einungis þrjú töp þar sem liðið skoraði alls 45 stig og fékk einungis 25 stig á sig.

Verðlaunaskiptingin var eftirfarandi:
Iveta Ivanova; gull í Cadett -54 kg og gull í liðakeppni.
Ágúst Heiðar Sveinbjörnsson brons í Cadett -70 kg.
María Helga Guðmundsdóttir silfur í -61 kg, brons í opnum flokki og gull í liðakeppni.
Telma Rut Frímannsdóttir gull í -61 kg, gull í opnum flokki og gull í liðakeppni.

Með þeim í för er Ingólfur Snorrason, landsliðsþjálfari í kumite.

Hér má sjá stiklu frá landsliðsþjálfara um ferðina:

https://www.youtube.com/watch?v=4w1bqlumC3Q&feature=youtu.be

Á meðfylgjandi mynd má sjá hópinn með verðlaun sín, frá vinstri Ingólfur, María Helga, Iveta, Telma Rut og Ágúst Heiðar.

About Helgi Jóhannesson