banner

Þrjú silfur og tvö brons á NM

Laugardaginn 7.apríl, fór fram Norðurlandameistaramótið í karate sem haldið var í Tallinn, Eistlandi. Ísland var með 12 keppendur á mótinu og eitt lið og stóðu þau sig öll vel. Hópkatalið okkar í kvennaflokki fékk silfurverðlaun eftir að hafa mætt danska hópkataliðinu í úrslitum, þriðja árið í röð.

Í einstaklingsflokkum stóð Ólafur Engilbert Árnason sig best þegar hann keppti í kumite í -75kg flokki. Í fyrstu umferð sigraði hann Jimmy Haag frá Svíþjóð. Í næstu umferð sigraði hann Eimatas Gajaukas frá Litháen 8-0 og í þriðju viðureigninni sigraði hann Aleksei Ustinov frá Eistlandi 2-0 og var þá komin í úrslit. Í loka viðureigninni um gullið tapaði Ólafur fyrir Pavel Artamonov 0-4 og hlaut því silfur í flokknum.

Í cadetflokki keppti Embla Kjartansdóttir í kumite -54kg flokki. Hún sigraði fyrstu viðureign sína við Katrin Kukk frá Eistlandi 2-0. Í næst viðureign sigraði hún Aleksandra Mihailova frá Lettlandi 1-0 og var þar með komin í úrslit. Í úrslitaviðureigninni beið hún lægri hlut fyrir Venla Karttunen frá Finnlandi 0-7 og uppskar þar með silfrið.

Máni Karl Guðmundsson vann brons í kumite -67kg flokki. Máni tapaði fyrir Nikolajs Bodrovs frá Letlandi 1-3 en Badrovs varð Norðurlandameistari í flokknum og fékk Máni því uppreisnarviðureign. Í viðureigninni um 3ja sætið sigraði Máni Joni Kolari frá Finnlandi í jafnri viðureign, 1-0. Máni Karl stóð uppi sem sigurvegari og bronsið hans.

Aron Anh Huynh keppti í kata junior og tapaði fyrstu viðureign sinni við Danann August Andersen með minnsta mun 2-3. Daninn fór í úrslit og því fékk Aron uppreisnarviðureign um 3ja sætið. Þar keppti Aron við Ventor Gjuka frá Noregi og sigraði 4-1 og bronsið var hans.

Aðrir keppendur okkar stóðu sig einnig mjög vel, margir áttu mjög góðan dag og voru í baráttu um bronsverðlaun en biðu lægri hlut.
Má þar nefna Sigríði Hagalín Pétursdóttur, 5ta sæti í kata female cadet, Aron Bjarkason, 5ta sæti kata male cadet, Svana Katla Þorsteinsdóttir, 5ta sæti kata female, Iveta Ivanonva, kumite junior female -53kg og Ágúst Heiðar Sveinbjörnsson, 5ta sæti kumite junior male -76kg.

Hópurinn að loknu móti. Verðlaunahafarnir í fremri röð: Laufey, Svana, Arna, Aron, Embla, Ólafur og Máni.

Hér er hægt að nálgast öll úrslit frá mótinu.
Nordic_Championship_2017_Results

About Reinhard Reinhardsson