Svana Katla Þorsteinsdóttir og Elías Snorrason Íslandsmeistarar í kata
Íslandsmeistarar frá vinstri: Móey, Arna, Svana, Elías, Sæmundur, Bogi og Aron.
Íslandsmeistaramótið í kata fór fram laugardaginn 3. mars og var haldið í Fylkisselinu. Góð mæting var á mótinu, um 20 keppendur auk 6 hópkataliða, 3 í kvennaflokki og 3 í karlaflokki, voru skráð til leiks, þar af allt landsliðsfólkið okkar í kata.
Í úrslitum í kata kvenna mættust þær Svana Katla Þorsteinsdóttir og Arna Katrín Kristinsdóttir, báðar úr Breiðablik, og átti Svana KAtla titil að verja.
Í úrslitum í kata karla áttust við þeir Elías Snorrason, margfaldur Íslandsmeistari í kata og Aron Ahn Ky Hyunh, Íslandsmeistari frá í fyrra, við. Var viðureign þeirra hnífjöfn og fór 3-2 að mati dómara.
Svana Katla Þorsteinsdóttir, Karatedeild Breiðabliks, varð íslandsmeistari í kata kvenna fjórða árið í röð og Elías Snorrason, Karatefélagi Reykjavíkur, endurheimti Íslandsmeistaratitil sinn í kata karla. Var það í fimmta sinn sem hann verður Íslandsmeistari í kata karla á síðustu átta árum.
Svana Katla Þorsteinsdóttir og Elías Snorrason.
Hópkatalið Breiðabliks í liðakeppni kvenna endurheimti titil sinn eftir að hafa unnið lið Þórshamars sem urðu Íslandsmeistarar í flokknum í fyrra. Er þetta sjötti titilinn hjá þeim á síðustu sjö árum.
Hópkatalið Þórshamars í liðakeppni karla varði titilinn frá fyrra ári. Eru þeir því Íslandsmeistarar þriðja árið í röð.
Karatedeild Breiðabliks sigraði í stigakeppni félaga á mótinu, með 18 stig, Þórshamar varð í öðru sæti með 15 stig og Karatefélag Reykjavíkur í þriðja sæti með 3 stig.
Yfirdómari á mótinu var Pétur Freyr Ragnarsson og mótsstjóri María Jensen.