banner

Fimm keppendur taka þátt í Opna Sænska meistaramótinu.

Karatesamband Íslands sendir fimm keppendur á Opna Sænska meistaramótið, sem fram fer í Kristianstad nú um helgina.

Um 600 skráningar eru inn á mótið en stærsti hluti keppenda kemur frá Norðurlöndunum.

Allir keppendurnir keppa í kumite (bardaga);Samuel Josh Amos keppir í Cadet flokki karla, -57 kg, Lóa Björg Finnsdóttir keppir einnig í Cadet flokki kvenna, -54 kg, Iveta Ivanova keppir í Junior flokki kvenna, -53 kg, Ágúst Heiðar Sveinbjörnsson keppir einnig í Junior flokki karla, -68 kg, og Ólafur Engilbert Árnason keppir í tveimur flokkum, U-21 og Senior flokkum karla, -75 kg.

Mikið er búið að vera að gera hjá landsliðinu undanfarið en Opna Sænska er fimmta mótið sem landsliðið fer á á árinu 2018 fram að þessu.
Árangurinn hefur verið góður og hafa Ólafur, Ágúst og Samuel allir verið tíðir gestir á verðlaunapöllunum, en þó hefur karatekona ársins, Iveta Ivanova borið af, sigrað tíu bardaga á árinu en einungis tapað einum, Iveta sigraði bæði á Opna Þýska meistarmótinu og einnig á Opna Amsterdam meistaramótinu.
þrátt fyrir að hafa byrjað árið meidd og misst af fyrsta erlenda verkefni ársins þá er Iveta í mjög góðu keppnisformi þessa dagana og er m.a. á leið í úrtöku fyrir Ólympíuleika ungmenna síðar á árinu.

Það verður því hart barist um helgina og munu Íslensku keppendurnir selja sig dýrt.
Undirbúningur landsliðsins á þessu ári hefur einkennst af leikskipulagi og persónulegum markmiðum keppenda og hefur hópurinn æft mjög stíft í vetur.

Ingólfur Snorrason, landsliðsþjálfari, er með í för en einnig er nokkuð fjölmennur hópur keppenda frá Fylki á mótinu.

Á myndinni eru: Lóa, Iveta, Samuel, Ólafur, Ágúst og Ingólfur.

About Reinhard Reinhardsson