banner

Góður árangur á Swedish Karate Open 2018

Íslenskt landsliðsfólk gerði gott mót á fyrri degi Opna Sænska meistaramótsins í karate, laugardaginn 14. apríl.

Iveta Ivanova gerði sér lítið fyrir og sigraði á þriðja sinn í röð á árinu er hún náði gulli í Junior flokki, -53 kg. Iveta lagði Jessie OReilly frá Írlandi og Rieh Plæhn frá Danmörku í undanriðli, og síðan sigraði hún Karolina Askuntowich örugglega, Írlandi, 5-0 og sigraði þar með flokkinn. Iveta hefur þá sigrað 13 bardaga á erlendum mótum á árinu en einungis tapað einum.

Ólafur Engilbert Árnason atti kappi við sama mótherjann í úrslitum í bæði U-21 og Senior flokkum, -75 kg. Ólafur tapaði fyrir Jakob Lövgren, Danmörku, í úrslitum Senior flokksins, 7-1, en sigraði hann síðan 4-1, í úrslitum í U-21.

Ágúst Heiðar Sveinbjörnsson komst í úrslit í Junior flokki, -76 kg, eftir að hafa lagt Paw Hastrub frá Danmörku og Henrik Rydstrøm frá Noregi. Í úrslitunum keppti Ágúst síðan við Sean McCarthy, frá Írlandi. Sean hefur verið á mikilli siglingu undanfarið og fór í úrslit í flokknum á dögunum á Evrópumótinu í Rússlandi. Svo fór að Írinn hafði betur gegn Ágústi 2-1, eftir ótrúlega jafna viðureign og er ljóst að á góðum degi er Ágúst til alls líklegur.

Tveir keppendur landsliðsins i karate luku keppni á siðari degi Opna Sænska meistaramótsins. Lóa Björg Finnsdóttir tapaði naumlega í Cadet, -54 kg, fyrir Clara List, Danmörku, 4-3, og fékk siðan uppreisnarbardaga gegn Hani Mirzadeh, Noregi, sem tapaðist einnig með einu stigi, 5-4.

Samuel Josh Amos byrjaði hins vegar Cadet flokk karla, -57 kg, með látum er hann sigraði Okan Kanturovski, Danmörku, 2-1. Þeir félaga mættust einmitt í úrslitum í Amsterdam á dögunum þar sem daninn fór með sigur af hólmi. Samuel tapaði síðan fyrir Johanes Bekic, Svíþjóð, 3-2, og keppti því um þriðja sæti við Bastian Ahlmann, sem Samuel sigraði 8-0.

Íslensku keppendurnir fimm kláruðu því mótið með tvennum gull verðlaunum, tvennum silfur verðlaunum og einum brons verðlaunum.

Frá vinstri: Iveta, Ágúst, Lóa, Samuel og Ólafur, fyrir utan höllina í Kristianstad.

Vídeó frá fyrri keppenisdegi

About Reinhard Reinhardsson