Gull, silfur og þrjú brons á NM 2023
Íslendingurinn Karen Vu bar sigur úr bítum í unglingaflokki í kumite á Norðurlandamótinu í karate í Gautaborg á laugardaginn var.
Ísland sendi alls 17 keppendur og tvö lið á mótið. Góður árangur náðist, eitt gull, tvö silfur og þrjú brons.
Karen keppti í flokki unglinga undir 48 kg og sigraði þar Finnann Emeliu Lin í úrslitum. Bardaginn var afar jafn og endaði með því að þær voru jafnar að stigum en þar sem Karen hafði verið fyrst til að ná stigi var sigurinn hennar.
Eydís Magnea Friðriksdóttir náði einnig góðum árangri á mótinu en hún hreppti bronsið í kata. Eydís sigraði lettneska keppandann Lönu Nesina í bronsleiknum.
Davíð Steinn Einarsson keppti í 70 kg og undir flokki í cadet. Davíð sigraði Norðmanninn Johan Jackobsen auðveldlega í fyrstu umferð, 4:0. Hann tapaði svo naumlega fyrir sigurvegara mótsins, Lettanum Leonids Vorozeikins, 1:2 í annarri umferð.
Davíð sigraði þó Danann Mathias Udahl í bronsleiknum og tryggði sér þriðja sætið á mótinu.
Að auki þá náðu hópkatalið kvenna, Guðbjörg Birta Sigurðardóttir, Móey María Sigþórsdóttir og Kristrún Bára Guðjónsdóttir, silfri á mótinu. Hópkatalið karla, Samúel Týr Sigþórsson, Tómas Aron Gíslason og Tómas Pálmar Tómasson, fagnaði einnig góðum árangri og hafnaði í þriðja sæti.