Landsliðið í kata á Copenhagen Open
Karatelandsliðið í kata fór á Copenhagen Open um helgina. Á mótið voru, auk okkar íslensku keppenda, mættir flestir þeir keppendur sem eru líklegir til að keppa fyrir sín lönd á komandi Norðurlandamóti í karate sem mun fara fram á Íslandi, að þessu sinni, 13-14 apríl nk.
Bestum árangri náðu þau Þórður Jökull Henrysson í fullorðinsflokki karla og Una Borg Garðarsdóttir í Junior flokki kvenna sem komust bæði i úrslit í sínum flokkum. Bæði þurftu þau að sigra 4 andstæðinga til að komast í úrslit. Í úrslitum mætti Þórður, Íranum David Gannon og Una mætti hinni ensku Ruby Rees. Þrátt fyrir flottar kata hjá þeim báðum þurftu þau þó að játa sig sigraða að þessu sinni, en 2.sætið engu að síður flottur árangur hjá þeim báðum á þessu sterka móti.
Aðrir keppendur stóðu sig vel og náðu flest allir að sigra amk eina viðureign.
Eydís Magnea Friðriksdóttir komst í 3ju umferð í fullorðins flokki kvenna og mætti þar norðurlanda meistaranum Frederikke Bjerring. Þrátt fyrir mjög góða framkvæmd á sinni kata hafði danski meistarinn betur núna.
Una Borg keppti einnig í fullorðins flokki og í annari umferð hafði hin sænska Stella Nyberg betur með minnsta mögulega mun eða 0.1 stigi.
Aðrir keppendur frá okkur voru Samúel Týr Sigþórsson McClure, Gabríel Sigurður Pálmason, Adam Ómar Ómarsson Levi, Jakub Kobiela og Arey Amalía Sigþórsdóttir McClure. Öll koma þau heim reynslunni ríkari en ferðin var hluti af undirbúningi landsliðsins fyrir Norðurlandamótið í apríl.
Með í ferðinni var landsliðsþjálfarinn Magnús Eyjólfsson.