okkar keppendurnir hafa lokið keppni á K1í Þýskalandi
Í dag, laugardaginn 26.september, fór fram fyrri keppnisdagurinn á Heimsbikarmóti í karate sem fer fram í Coburg Þýskalandi. Mikil þátttaka var á mótinu yfir 700 keppendur skráðir til leiks frá 36 löndum , enda safna keppendur stigum fyrir heimslista með þátttöku á Heimsbikarmótum Alþjóðlega Karatesambandsins. Okkar keppendur luku keppni í dag þar sem þeir duttu allir út í fyrstu umferð.
Í kata kvenna keppti Kristín Magnúsdóttir á móti Fabienna Dyroff frá Þýskalandi og Svana Katla Þorsteinsdóttir keppti á móti Maryia Fursava frá Hvíta-Rússlandi. Báðir andstæðingar þeirra duttu síðan út í næstu umferðum og því fengu Kristín og Svana ekki fleiri viðureignir, í kata kvenna voru 77 þátttakendur frá 25 löndum. Bogi Benediktsson keppti í kata karla þar sem mikil þátttaka var eða 96 keppendur frá 28 löndum. Bogi keppti á móti Paul Lichtwark frá Þýskalandi sem hafði betur en Paul datt út í næstu umferðum og því var keppni Boga lokið.
Í kumite kvenna -68kg áttum við tvo keppendur, Telmu Rut Frímannsdóttur og Kristínu Magnúsdóttur, 49 keppendur voru skráðir til keppni frá 26 löndum. Telma Rut lenti á móti Rim Mourad frá Svíþjóð sem vann viðureign þeirra 1-0, Rim datt út í næstu umferð og þar með hafði Telma lokið keppni. Kristín lenti á móti hinni feiknasterku Gitte Brunstad frá Noregi, sem er í 5.sæti á heimslista Alþjóðlega Karatesambandsins auk þess að vera Norðurlandameistari í þessum flokki. Gitte vann Kristínu 5-0 sem og næstu 3 bardaga en tapaði í fjórðungsúrslitum og því átti Kristín ekki möguleika á uppreisn og möguleikan á að keppa um 3ja sætið. Síðastur okkar keppanda var Ólafur Engilbert Árnason sem keppti í kumite -75kg flokki, þar sem 85 keppendur voru skráðir frá 36 löndum. Ólafur lenti á móti Veselko Brkic frá Bosnia-Herzegovina í hörkubardaga sem endaði 4-2 fyrir Veselko, Veselko vann einnig næstu 2 andstæðinga sína en datt út í 8 manna úrslitum og þar með átti Ólafur ekki möguleika á uppreisn.
Með hópnum var Gunnlaugur Sigurðsson Landsliðsþjálfari. Á meðfylgjandi mynd má sjá hópinn sem keppti í Þýskalandi, frá vinstri Bogi, Kristín, Svana, Telma, Ólafur og Gunnlaugur.