Nýir Íslandsmeistarar á ÍM í kata
Íslandsmeistaramótið í kata fullorðinna 2020 fór fram sunnudaginn 4. október í Fylkishöllinni.
Mótið átti að fara fram í mars síðastliðnum en var frestað vegna samkomubanns stjórnvalda.
Um 20 keppendur voru skráðir til leiks auk 7 hópkata liða frá 5 karatefélögum.
Nýir Íslandsmeistarar voru krýndir bæði í kvenna og karlaflokkum.
Í kata kvenna varð landsliðskonan Freyja Stígsdóttir, Þórshamri, hlutskörpust en hún sigraði Maríu Helgu Guðmundsdóttir, einnig frá Þórshamri, sem er aðstoðarlandsliðsþjálfari í kata.
Í kata karla sigraði Þórður Jökull Henrysson, Aftureldingu, Tómas Pálmar Tómasson, Breiðabliki. Þeir eru báðir ungir og efnilegir landsliðsmenn í kata.
Má segja að kynslóðaskipti hafi átt sér stað því eldri keppendur máttu láta í lægra haldi fyrir þeim yngri.
Karatefélagið Þórshamar varð síðan félagsmeistari mótsins með flest stig.
Vegna sóttvarnaráðstafanna var einnig keppt í flokkum 16-17 ára ungmenna á mótinu sem annars ættu að fara fram á Unglingameistarmótinu í kata eftir 3 vikur.
Yfirdómari á mótinu var Pétur Freyr Ragnarsson og mótsstjóri María Jensen.