banner

Samuel Norðurlandameistari – 13 íslensk verðlaun

Samuel Josh Ramos Norðurlandameistari í karate

Hinn tvítuig Samuel Josh Ramos varð Norðurlandameistari í karate í Laugardalshöllinni í gær. Samuel keppir í -67 kg flokki karla í kumite (frjálsum bardaga). Eftir örugga 2-0 sigra á Norðmanninum Nichlas Helfred Johansen og Finnanum Leevi Saario í fjórðungs- og undanúrslitum mætti Samuel Lettanum Kristians Anri Petersons í úrslitum. Viðureign þeirra var jöfn og spennandi og stóðu stigin að lokum 1-1, en þar sem Samuel hafði verið fyrri til að skora vann hann viðureignina á frumkvæðisstigi (senshu á japönsku) og stóð uppi sem sigurvegari.

Samuel Josh Ramos, Norðurlandameistari í kumite -67 kg karla, á verðlaunapalli (annar frá vinstri). Mynd: Kristján U. Kristjánsson

Besti árangur Íslands frá upphafi

Íslendingar áttu frábæran dag á mótinu og unnu alls þrettán verðlaun: eitt gull, fimm silfur og sjö brons. Þetta er liðsmet, því áður hafði Ísland mest unnið 11 verðlaun á Norðurlandamóti.

Í einstaklingsgreinum kepptu, auk Samuels, þrír Íslendingar til úrslita í sínum flokkum. Hugi Halldórsson stimplaði sig rækilega inn í -84 kg flokki karla í kumite á fyrsta ári sínu í fullorðinsflokki, vann sænska reynsluboltann Jimmy Haag í undanúrslitum og háði æsispennandi viðureign um gullið við Danann Noah Kristensen. Þar fóru leikar á endanum 5-3 hinum danska í vil, en það verður spennandi að fylgjast með gangi Huga í flokknum á komandi árum.

Hugi Halldórsson (blár) vann Jimmy Haag í undanúrslitum -84 kg karlaflokks eftir æsispennandi viðureign. Mynd: Kristján U. Kristjánsson

Una Borg Garðarsdóttir vann til silfurverðlauna í kata 16-17 ára stúlkna. Eftir sigra á keppendum frá Eistlandi, Danmörku og Lettlandi mætti hún hinni sænsku Tuvu Westlund í úrslitum. Una framkvæmdi kata Suparinpei og hlaut ágætis einkunn fyrir, 23,00 stig, en Tuva hlaut 23,90 stig fyrir framkvæmd sína á Ohan og hirti því gullið.

Una Borg Garðarsdóttir vann silfur í kata 16-17 ára stúlkna. Mynd: Kristján U. Kristjánsson

Karen Thuy Duong Vu komst í úrslit í -48 kg flokki 16-17 ára stúlkna, en hún átti þar titil að verja síðan í fyrra. Þar mætti hún hinni sænsku Agnesi Nyman, nýkrýndum Evrópumeistara sem situr í efsta sæti heimslistans. Þar reyndist á brattann að sækja fyrir Karenu en hún stóð uppi með gott silfur eftir 0-2 tap í úrslitum.

Karen Thuy Duong Vu (blá) í baráttu við Agnesi Nyman í úrslitum -48 kg flokks 16-17 ára stúlkna í kumite. Mynd: Kristján U. Kristjánsson

Þórður Jökull Henrysson átti öfluga innkomu í kataflokki karla. Fyrstu tvo andstæðinga sína vann hann með talsverðum yfirburðum. Í undanúrslitum mætti hann hinum sænska William Tran, sem var Norðurlandameistari árið 2022 og í 2. sæti á Evrópumóti í U21 árs flokki 2023. Tran hlaut einkunn 24,00 fyrir sína kata en Þórður 23,90 og var því hársbreidd frá því að komast í úrslit. Hann tryggði sér loks bronsið með sannfærandi sigri á Dananum Mark Løytved, 24,20 gegn 23,30.

Þórður Jökull Henrysson mætti einbeittur til leiks í kata karla og uppskar brons. Mynd: Kristján U. Kristjánsson

Þá unnu Embla Rebekka Halldórsdóttir, Filip Leon Kristófersson, Eydís Magnea Friðriksdóttir, Ísold Klara Felixdóttir og Ólafur Engilbert Árnason öll til bronsverðlauna í sínum flokkum.

Í liðakeppni unnu Íslendingar silfur í hópkata karla og brons í hópkata kvenna. Þá tók unglingalið Íslands silfur í kynjablandaðri liðakeppni, sem er ný keppnisgrein á Norðurlandamótinu þar sem piltar og stúlkur mynda saman lið og keppa til skiptis.

Unglingalið Íslands vann silfur í blandaðri keppni í kumite. Frá vinstri: Filip, Emilý, Prince, Embla og Eðvarð. Mynd: Kristján U. Kristjánsson

About María Helga Guðmundsdóttir