banner

Fjórir keppendur á HM

Heimsmeistaramótið í karate fer fram 5-9.nóvember næstkomandi í Bremen, Þýskalandi. Í heildina eru 876 keppendur frá 107 þjóðum skráðir til leiks í 16 keppnisflokkum, bæði í kata og kumite en keppnisflokkar í kumite er svo skipt upp í mismunandi þyngdarflokka karla og kvenna. Á heimsmeistaramóti mega þjóðir einungis senda 1 keppanda í hvern keppnisflokk. Ísland sendir 4 keppendur til leiks, Elías Snorrason, Jóhannes Gauta Óttarsson, Kristínu Magnúsdóttur og Telmu Rut Frímannsdóttur. Heimsmeistaramótið stendur yfir í 5 daga, keppt verður í undanrásum miðvikudag til föstudags, en úrslit í einstökum flokkum fara fram um helgina 8-9.nóvember. Okkar fólk mun keppa í sínum flokkum miðvikudaginn 5.nóvember. Elías keppir í kata karla (68 keppendur), Jóhannes Gauti keppir í kumite -75kg flokki (73 keppendur), Kristín keppir í kata kvenna (59 keppendur) og Telma Rut keppir í kumite -68kg flokki (53 keppendur). Með þeim í för eru landsliðsþjálfararnir Gunnlaugur Sigurðsson og Magnús Kr. Eyjólfsson og formaður Karatesambandsins Reinharð Reinharðsson.

Á meðfylgjandi mynd má sjá keppendur og þjálfara. Frá vinstri Gunnlaugur, Jóhannes Gauti, Kristín, Elías og Magnús. Á myndina vantar Telmu Rut sem er við æfingar í Frakklandi fram að móti.

KAI_HM_2014_keppendur

About Helgi Jóhannesson