banner

Góður árangur á BanzaiCup-Telma Rut með brons í -61kg flokki

kai_2016_banzaicup_verdlaunÍ gær, laugardaginn 17.september, fór fram sterkt þýskt mót, Banzai-Cup, í Berlín Þýskalandi. Ísland sendi níu landsliðsmenn til keppni að þessu sinni, það voru Ágúst Heiðar Sveinbjörnsson, Fylkir, Aron Breki Heiðarsson, Breiðablik, Elías Snorrason, KFR, Iveta Ivanova, Fylkir, María Helga Guðmundsdóttir, Þórshamar, Máni Karl Guðmundsson, Fylkir, Ólafur Engilbert Árnason, Fylkir, Svana Katla Þorsteinsdóttir, Breiðablik, og Telma Rut Frímannsdóttir, Afturelding.

Bestum árangri okkar keppanda náði Telma Rut Frímannsdóttir, Aftureldingu, þegar hún endaði í 3ja sæti í kumite -61 kg flokki. Telma byrjaði á að sigraði tvo þýska keppendur í fyrstu tveimur viðureignum sína en í undanúrslitum tapaði hún fyrir Lynn Snel frá Hollandi eftir jafna viðureign þar sem skera þurfti úr með sigurvegara með dómaraúrskurði.  Í bardaga um þriðja sætið sigraði Telma Natascha Lauritsen frá Danmörku örugglega, keppendur í flokknum voru 12 talsins frá 9 löndum.Telma tók einnig þátt í opnum flokki þar sem hún tapaði fyrir Anzhelika Terliuka, silfurverðlaunahafa frá Evrópumótinu, í fyrstu umferð, þar sem Anzhelika fór í úrslit fékk Telma uppreisn. Telma gerði sér lítið fyrir og sigraði fyrstu tvær  uppreisnar viðureignirnar og keppti um þriðja sætið við Amelia Harvey landsliðskonu frá Englandi, Telma tapaði þar mjög naumlega og lenti því í 5.sæti.  Opni flokkurinn var mjög fjölmennur en alls tóku yfir 30 keppendur þátt frá 13 löndum.

Ólafur Engilbert Árnason, Fylki, náði 3.sæti í U21 árs flokki kumite -75 kg. Ólafur sigraði í fyrstu umferð Nikolaos Basoukos frá Grikklandi, í annarri umferð Dans Savickis frá Lettlandi en tapaði síðan naumlega fyrir Bogdan Tashoglu frá Úkraínu í undanúrslitum.  Í bardaganum um 3ja sæti sigraði Ólafur síðan Harvey Curtis frá Englandi.  Þátttakendur í flokknum voru 19 frá 11 löndum.

Þau Elías Snorrason, KFR, og Svana Katla Þorsteinsdóttir, Breiðablik, kepptu í kata og enduðu bæði í fimmta sæti eftir mikla baráttu.  Svana vann Kirsten Loven frá Noregi í fyrstu umferð en beið lægri hlut fyrir Olgu Nolta frá Slóvakiu en þar sem Olga komst í úrslti fékk Svana uppreisn og möguleika á að keppa um 3ja sætið. Í fyrstu viðureign í uppreisn vann hún Emelia Ibrahim frá Hollandi en í baráttunni um 3ja sætið tapaði Svana naumlega fyrir Izabella Tran frá Svíþjóð 3-2, en þess má geta að fyrr á árinu vann Svana Izabellu á sænsku móti, 19 keppendur voru í flokknum frá 11 löndum. Elías vann Lucas Hermann frá Þýskalandi, en tapaði fyrir Wouter Deijl frá Hollandi, Deijl fór alla leið í úrslit og því fékk Elías uppreisnarviðureignir.  Í fyrstu uppreisninni vann hann Milan Zitko frá Tékklandi en í viðureigninni um 3ja sætið tapaði Elías fyrir Filippo Panetta frá Þýskalandi, 23 keppendur voru í flokknum frá 7 löndum.

Auk þeirra áttu Iveta, Máni Karl, Aron Breki, Ágúst Heiðar og María Helga ágætis dag þrátt fyrir að hafa dottið úr í fyrstu og annarri umferð.

Eins og fyrr hefur komið fram, þá var mótið mjög stórt, yfir 1100 keppendur skráðir frá 34 löndum og þar af fjöldi landsliðsmanna sem eru að nota mótið sem undirbúning fyrir Heimsmeistaramótið í Karate sem fer fram í Linz Austurríki 25-30.október. Með landsliðsfólkinu í för voru Ingólfur Snorrason, landsliðsþjálfari í kumite, og Reinharð Reinharðsson, Formaður KAÍ, sem dæmdi á mótinu.

Á meðfylgjandi mynd má sjá hópinn eftir mótið, frá vinstri Ingólfur, Svana Katla, María Helga, Ágúst Heiðar, Ólafur Engilbert, Aron Breki, Telma Rut, Elías, Máni Karl og Iveta.

Hér má sjá viðtöl við Telmu, Ólaf, Svönu og Elías.

 

About Helgi Jóhannesson