banner

Þrjú silfur hjá karatefólki á Finnish Open Cup

Laugardaginn 8.september fór fram sterkt bikarmót Í Helsinki, Finnish Open Cup. Ísland sendi vaska sveit keppenda á mótið, allt okkar landsliðsfólk í kata keppti. Okkar fólk náði góðum árangri og var uppskeran þrjú silfurverðlaun auk annarra góðra úrslita. Þess má geta að allt finnska landsliðið í kata keppti á þessu móti og var styrkleiki mótsins eftir því.

Íslensku keppendurnir nota þetta mót sem undirbúning fyrir Smáþjóðamótið sem haldið verður í San Marínó 28-29.september og fyrir Norðurlandameistaramótið sem haldið verður í Tampere, Finnlandi, 24.nóvember.

Bestum árangri okkar fólks náðu Svana Katla Þorsteinsdóttir og Aron Anh Huynh í fullorðinsflokki. Bæði sigruðu þau tvo andstæðinga áður en í úrslit komu þar sem þau mætti bæði finnsku meisturunum. Svana Katla mætti Mänty Bess en Aron Anh mætti Jesse Enkamp, leikar fóru svo að þau finnsku unnu bæði í karla- og kvennaflokki og því silfrið okkar. Í úrslitum kvenna U18 mætti Móey María Sigþórsdóttir McClure finnsku landsliðskonunni Ellinora Vaara sem hafði betur og því fékk Móey silfur.

Af öðrum keppendum, þá átti Aron Bjarkason góðan dag í flokki karla U18 þar sem hann endaði í 4.sæti eftir að hafa lagt tvo andstæðinga í fyrri umferðum, tapaði svo fyrir Claus Enckell í bronsviðureigninni. Aron endaði einnig í 7.sæti í fullorðinsflokki, auk þess sem Þórður Jökull Henrysson endaði í 5-6.sæti í sama flokki.

Aðrir keppendur á mótinu frá Íslandi voru Elías Snorrason, Oddný Þórarinsdóttir og Tómas Pálmar Tómasson. Með þeim í för var landsliðsþjálfarinn Helgi Jóhannesson og Reinharð Reinharðsson fararstjóri.


Á meðfylgjandi mynd má sjá Aron Anh, Móey Maríu og Svönu Kötlu með silfurverðlaun sín.

Á seinni myndinni má sjá landsliðsfólkið eftir mótið, frá vinstri: Tómas Pálmar, Aron Anh, Móey María, Þórður Jökull, Oddný, Svana Katla, Aron B. og Elías.

About Reinhard Reinhardsson