Afreksstefna Karatesambands Íslands 2024 – 2027 |
Karateíþróttin er að mestum hluta stunduð í félögum á höfuðborgarsvæðinu en einnig eru nokkur utan höfuðborgarsvæðisins. Um 1000 – 1500 iðkendur stunda karateíþróttina á hverju ári. Á Íslandi eru stundaðir að mestu 4 stílar karate, og hefur það áhrif að nýtingu á þjálfurum. Þ.e. það er ekki eins auðvelt að samnýta þjálfara á milli karatestíla. Nokkur félög hafa farið út í það að sækja kennara erlendis frá og hefur það reynst mjög vel. |
Stjórn KAÍ í samstarfi við landsliðsnefnd fer yfir afreksstefnun KAÍ í upphafi árs. Uppfærð afreksstefna er lögð fyrir Karateþing í febrúar ár hvert til kynningar, umræðu og samþykktar. Að þingi loknu er Afreksstefnan uppfærð á heimasíðu KAÍ. |
Markmið Karatesambands Íslands fyrir afrek á erlendum vettvangi er eftirfarandi: Að stefna að því að eiga keppendur í 16 manna úrslitum á Evrópu- eða heimsmeistaramótum árin 2022 og 2023 og í 8 manna úrslitum 2024 og 2025. Að eiga keppendur í verðlaunasætum á sterkum eða millisterkum alþjóðlegum mótum. Þetta á hvoru tveggja við um unglinga og fullorðins keppendur. |
Það sem háir íþróttinni á landsvísu er fyrst og fremst þjálfaraskortur. Nánast allir þeir þjálfarar sem eru hærra gráðaðir (svart belti eða hærra) eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Kostnaður er einnig mikill við þátttöku á mótum erlendis. |
Landsliðsþjálfarar þurfa að hafa staðgóða þekkingu á karate með keppni í huga. Hafa lokið þjálfaranámí ÍSÍ eða með sambærilega menntun. Erlendir þjálfarar sem koma til landsins hafa mikla keppnisreynslu og hafa starfað sem þjálfarar afreksmanna í karate. Þjálfarar landsliðanna eru hvattir til að afla sér aukinnar þekkingar í íþróttinni og öðrum þáttum afreksíþrótta. Haldin eru þjálfaranámskeið fyrir félagsþjálfara þar sem áherslur og markmið landsliðsþjálfara eru útskýrð. |
Íþróttina er hægt að stunda við mjög einföld skilyrði þ.e. aðstaða í flestum íþróttasölum landsins er fullnægjandi. Karatesambandið er ekki með eigin aðstöðu til æfinga fyrir landsliðin en hefur leitað til karatefélaga og –deilda með æfingaaðstöðu. Flest þeirra eiga nú viðurkennda keppnisvelli sem nýtast við æfingar. |
Lengst framan af voru aðeins fá mót sem iðkendur gátu keppt á. Með tilkomu nýrra móta sem KAI hratt af stað, þ.e. Bikarmótaröð fullorðinna sem eru 2-4 yfir árið og var farið af stað með árið 1996, sem og bikarmótaröð unglinga (12-17 ára) sem fyrst var keppt á árið 2006, hafa keppendur öðlast mun fyrr keppnisreynslu sem þeim er svo nauðsynleg þegar komið er á erlend mót. Sífellt stækkandi hópur íslenskra keppnismanna hefur sótt alþjóðleg mót undanfarin ár og náð þar ágætis árangri. Yngri keppendur eru farnir að sækja alþjóðleg mót í mun ríkari mæli, og verða þannig mun betur í stakk búin til að ná árangri á erlendri grundu en áður hefur þekkst. |
Afrek telst vera að vinna til verðlauna á sterkustu opnu alþjóðamótunum, komast í verðlaunasæti á millisterkum mótum, þar með talið Norðurlandamót og Smáþjóðamót Evrópu, í 16 manna úrslit á Evrópumótum og Heimsmeistaramótum, hvort sem um er að ræða unglingamót eða fullorðinsmót. |
• Innan KAÍ skal starfa Landsliðsnefnd, valin af stjórn KAÍ, til að halda utan um landsliðsmál. |
Karatesamband Íslands fer með málefni íþróttarinnar gagnvart ÍSÍ og er aðili að Norræna karatesambandinu (NKF), Karatesambandi Smáþjóða í Evrópu (SSEKF), Karatesambandi Evrópu (EKF), Alþjóða karatesambandinu (WKF) og er viðurkennt af Alþjóða Ólympíunefndinni, IOC. Landsliðsþjálfari í samvinnu við landsliðsnefnd ber ábyrgð á að fylgja stefnu sambandsins í þeim málum sem honum er úthlutað. Hann sér um að undirbúa keppendur fyrir þau verkefni sem á undan hafa verið talin og ná þeim markmiðum sem koma fram í afreksstefnunni. Val á keppendum er undir honum komið og vinnur hann í samvinnu við landsliðsnefnd KAÍ hverju sinni. |
Til að komast í landslið Íslands í karate þurfa keppendur að hafa fengið boð frá landsliðsþjálfara. Landsliðsþjálfarar velja í landsliðshóp. Keppandi mætir a.m.k. á 70% skipulagðra samæfinga á vegum landsliðsnefndar á hverju misseri Keppandi vinnur sjálfstætt í æfinga- og keppnisáætlun sinni og fer reglulega yfir hana með landsliðsþjálfara/landsliðsnefnd. |
Hér eru upptalin þau verkefni sem stefnt er að ef fjárhagur leyfir og keppendur hafa sýnt árangur sem uppfyllir skilyrði til þátttöku í erlendum verkefnum. Verkefni geta fallið niður ef ekki er til nægilegt fjármagn. Landsliðsþjálfari eða staðgengill hans þurfa að fylgja keppendum á mót erlendis. Fararstjórar frá KAÍ fylgja keppendum á flest stórmót. Verkefni 2024 Heimsmeistaramót ungmenna, í október á Ítalíu Verkefni 2025 Heimsmeistaramót fullorðinna í október Verkefni 2026 Heimsmeistaramót ungmenna, í október, Verkefni 2027 Heimsmeistaramót fullorðinna í október, |
Landsliðsverkefni eru fjármögnuð með afreksstyrkjum frá Afrekssjóði ÍSÍ, með Lottó tekjum, af öðrum tekjum sambandsins og með styrkjum frá styrktaraðilum. Einnig greiða keppendur hluta kostnaðar við hverja ferð. |
Vegna smæðar sambandsins er ekki starfandi fagteymi hjá Karatesambandinu. Sambandið mun aðstoða keppendur með að útvega sjúkraþjálfara og íþróttasálfræðing eftir þörfum. Stefnt er að því að nýta sameiginlegt teymi ÍSÍ þegar því verður komið á fót. |
Landsliðsþjálfari/landsliðsnefnd skilar stjórn KAÍ skýrslu á ári hverju þar sem síðasta ár er skoðað með tilliti til árangurs, eftirfylgni og áætlana. Landsliðsnefnd og stjórn meta stöðuna og halda eða breyta áætlunum hverju sinni. |
Stjórn KAÍ hefur alla umsjón og ber ábyrgð á afreksstefnu sambandsins. Beinir aðilar að afreksstefnunni eru: Stjórn KAÍ, landsliðsnefnd, landsliðsþjálfarar. KAÍ skal kynna keppendum hlutverk þeirra og væntingar sem gerðar eru til þeirra sem valdir eru í landslið sambandsins. KAÍ skal vinna að því að virkja það fólk sem kemur að afreksstefnunni, til að vinna jafnframt með hóp ungra og upprennandi afreksmanna. |
Samþykkt á Karateþingi 18. Febrúar 2024. Breytt af stjórn 10.10.2024 |