banner

Bikarmót

Almennar reglur.
1. gr. Árlega skal halda Bikarmót KAÍ í kumite og kata. Hvert bikartímabil er almanaksárið. Bikarmótinu skal skipta í einn, tvo, þrjá eða fjóra hluta fyrirfram. Keppt skal í tveimur flokkum í hverjum hluta mótsins í kumite, opnum flokki kvenna og opnum flokki karla og tveimur flokkum í kata, flokki karla annars vegar og flokki kvenna hins vegar.
2. gr. Eftir hvern hluta skal gefa 10 stig fyrir fyrsta sæti, 8 stig fyrir annað sæti, 6 stig fyrir tvö þriðjasæti og 3 stig fyrir að tapa bardaga um þriðja sæti. Ef keppendur eru 3 keppa allir við alla og skal gefa 10 stig fyrir fyrsta sæti, 8 stig fyrir annað sæti og 6 stig fyrir þriðja sæti. Ef einungis einn keppandi mætir í tilteknum flokki skal hann fá 10 stig, enda hafi hann farið ósigraður frá móti. Hægt er að keppa bæði í kata og kumite og leggjast þá stigin úr greinunum tveim saman. Eftir að öllum Bikarmótum tímabilsins er lokið skulu stigahæsta konan og stigahæsti karlinn í samanlögðum greinum verða útnefnd Bikarmeistarar KAÍ. Þeim tveimur sem koma næst þeim að stigum í flokki karla og flokki kvenna skal veita önnur og þriðju verðlaun. Séu tveir einstaklingar jafnir að stigum í lok bikarkeppninnar vinnur sá er oftar var í fyrsta sæti. Sé enn jafnt vinnur sá er oftar hefur verið í öðru sæti og svo framvegis.
3. gr. Lágmarksaldur keppenda á bikarmótum skal vera 16 ár og skal miða við fæðingarár.
4. gr. Hverju þátttökufélagi er skylt að tilnefna 1 starfsmann fyrir hverja 10 keppendur eða hluta af þeim fjölda og a.m.k. einn dómara með tilskilin réttindi viðurkennd af KAÍ.
5. gr Að öðru leyti skal fylgja reglugerð um Íslandsmeistaramót í Karate.
Samþykkt af stjórn KAÍ í ágúst 2017.