banner

Reglur um karatedómara

Almennar reglur.

1. gr. Dómaranefnd KAÍ, skipuð þremur hæfum mönnum af stjórn KAÍ til eins árs í senn ákveður réttindi dómara. Dómaranefnd skal úthluta dómurum réttindi eftir getu og þekkingu þeirra, bæði í kata og kumite, fyrst sem B-meðdómari, þá A-meðdómari, B-dómari og loks A-dómari. Karatedómari nefnist sá sem hefur bæði A-dómararéttindi í kata og kumite. Nefndin skal halda dómaranámskeið a.m.k. einu sinni á ári og gefur dómaraefnum færi á að þreyta próf til réttinda. Prófið skal vera bæði verklegt og skriflegt. Dómarar, sem hljóta réttindi skv. reglum þessum, skulu ganga framar þeim dómurum, sem minni réttindi hafa eða engin. A-meðdómarar hafa rétt til þess að vera aðaldómarar á innanfélagsmótum og meðdómarar á héraðsmótum. B-dómarar hafa rétt til að vera aðaldómarar á héraðsmótum og meðdómarar á Íslandsmeistara-mótum. A-dómarar skulu vera aðaldómarar á Íslandsmeistaramótum. Héraðsmót kallast mót þar sem keppendur koma úr fleiri en einu félagi.

2. gr. Til að öðlast réttindi sem Karatedómari þarf viðkomandi að hafa 1. Dan gráðu eða hærri og að vera orðinn 22 ára.
Dómari í kata og kumite þarf að vera með 1. kyu gráðu eða hærri og orðinn 18 ára.
Meðdómari í kata og kumite þarf að vera með 3. kyu gráðu eða hærri og orðinn 16 ára.

3. gr. Öll dómararéttindi gilda í þrjú ár en halda verður þeim við með því að sækja námskeið og dæma reglulega á mótum á vegum KAÍ. Dómarar þurfa að dæma minnst tvisvar á ári og meðdómara einu sinni á ári til að halda kata og kumite réttindum sínum.
Dómarnefnd má uppfæra réttindi úr B í A án þess viðkomandi farið í nýtt próf ef hann hefur dæmt reglulega og staðið sig á A-stigi.
Til að standast skriflegt próf þarf yfir 90% rétt svör til að ná dómararéttindum og yfir 85% rétt svör til að ná meðdómararéttindum.
Einnig þarf að standast verklegt próf að mati dómaranefndar.”

Samþykkt af stjórn KAÍ 28. september 2019