banner

Jóhannes Gauti í 10-11.sæti á heimsbikarmótinu

KAI_Johannes_GautiJóhannes Gauti og Telma Rut hafa lokið keppni á heimsbikarmótinu í karate sem fer fram í Salzburg Austurríki. Þetta er lokamótið í bikarmótaröð WKF (World Karate Federation) þar sem allt besta karatefólk heimsins tekur þátt, í ár voru yfir 600 keppendur skráðir til leiks.  Jóhannes Gauti fékk mjög sterkan andstæðing í fyrstu umferð í kumite -75kg flokki, norðurlandameistarann Ruslans Sadikovs frá Lettlandi. Ruslans, sem er í 18.sæti á heimslista alþjóðlega karatesambandsins, vann Jóhannes nokkuð örugglega 7-0 sem og aðra andstæðinga sína í flokknum og mun Ruslans keppa til úrslita í flokknum.  Jóhannes Gauti fékk því uppreisnarviðureign og möguleika á að keppa um 3ja sætið í flokknum. Hann mætti W. Wierdis frá Ítalíu í hörku viðureign, þar sem ítalinn fékk á sig 3 refsistig en sá ítalski vann viðureignina að lokum 3-0 og endaði Jóhannes Gauti því í 10-11.sæti í flokknum af 68 keppendur voru skráðir til leiks.  Telma Rut átti ekki góðan dag í kumite -68kg flokki því hún tapaði fyrstu viðureign sinni 3-0 á móti N. Aberer frá Austurríki, sem tapaði síðar næstu viðureign sinni og því átti Telma Rut ekki möguleika á uppreisn og rétt á að keppa um 3ja sætið.  Næstu verkefni þeirra er heimsmeistaramótið í karate sem fer fram í Bremen, Þýskalandi, 5-9. nóvember næstkomandi.  Með þeim í för er Gunnlaugur Sigurðsson landsliðsþjálfari í kumite.

Uppfærð frétt kl. 23:00, Ruslans Sadikovs frá Lettlandi vann í -75kg flokki eftir viðureign við Gabor Harspataki frá Ungverjalandi.

About Helgi Jóhannesson