banner

Karateþing 2017

30. Karateþing var haldið laugardaginn 25. febrúar í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Um 30 fulltrúar karatefélaganna á landinu tóku þátt í þingstörfunum. Hafsteinn Pálsson, úr framkvæmdastjórn ÍSÍ, var gestur á þinginu.

Reinharð Reinharðsson, formaður KAÍ til 11 ára, var sæmdur gullmerki ÍSÍ af Hafsteini Pálssyni, fyrir stjórnunarstörf í karatehreyfingunni.

Nokkur mál lágu fyrir þinginu, Afreksstefna KAÍ fyrir 2017 – 2019, fjárhagsáætlun 2017 auk tillagna um greiðslur fyrir dómgæslu, fjölda dómara á mótum, aldur keppenda á mótum og skráningu og viktun keppenda fyrir mót.

Nokkrar umræður urðu um Afreksstefnu KAÍ og tók hún lítilsháttar breytingum í umfjöllun allsherjarnefndar. Hún var síðan samþykkt með áorðnum breytingum.

Miklar umræður urðu um aðar tillögur og var samþykkt eftir umræður og nokkrar breytingar í nefndum tillögur um greiðslu fyrir dómgæslu og um skráningu og viktun keppenda.

Tillaga um fjölgun dómara frá félögunum var felld og tillaga um aldur keppenda á mótum tók gagngerum breytingum í nefnd og var hún samþykkt með áorðnum breytingum. Mun því í framtíðinni verða miðað við fæðingardag en ekki fæðingarár keppenda á mótum á vegum KAÍ og mótaraðir á vegum sambandsins munu miðast við almanaksárið.

Reinharð Reinharðsson var endurkjörinn formaður sambandsins og tveir nýir stjórnarmenn komu inn í aðalstjórn, Arnar Jónsson og Willem C. Verheul. Einn nýr stjórnarmaður kom inn í varastjórn, Guðmundur Ásmundsson.

Ný stjórn KAÍ 2017. Á myndina vantar Ævar Austfjörð.

About Reinhard Reinhardsson