banner

Freyja og Oddný með Gull á Gladsaxe Open

Katalandslið Íslands hélt áfram keppnisferð sinni í dag og keppti á Gladsaxe Open í Danmörku. Yfir 600 keppendur voru skráðir í mótið og margar góðar viðureignir sáust í dag. Íslenska liðið endaði með 10 verðlaun, 2 gull, 2 silfur og 6 brons.

Bestan árangur íslenska hópsins náðu Freyja Stígsdóttir og Oddný Þórarinsdóttir. Freyja byrjaði daginn á að keppa í flokki junior, vann sinn riðil örugglega og mætti Katherine Strange í úrslitum. Freyja vann þá viðureign með 23,26 stigum á móti 22,02 hjá Katherine og fyrsta gull okkar komið í hús. Freyja keppti auk þess í senior flokki, var önnur í undanriðli sínum og önnur stigahæst í 2.umferð, þar með fékk hún réttinn á að keppa um 3ja sæti. Í þeirri viðureign mætti hún Natascha Lauritsen, Freyja gerði sér lítið fyrir og vann þá viðureign með 22,86 stigum á móti 22,6 stigum Natascha og bronsið því Freyju.

Oddný átti mjög góðan dag í dag, byrjaði á að keppa í flokki cadet (14-15 ára) þar sem hún vann undanriðill nokkuð öruggleg og svo 2.umferðina og var með því komin í úrslitaviðureignina. Þar mætti hún stöllu sinni úr landsliðinu, Eydísi Magneu Friðriksdóttur sem hafði eins og Oddný unnið sinn undanriðil og 2.umferðina. Eftir jafna og góða viðureign stóð Oddný uppi sem sigurvegari og Eydís fékk þá silfur. Þær Oddný og Eydís báru höfuð og herðar yfir aðrar stúlkur í þessum flokki, voru þó nokkuð hærri í stigum í öllum umferðum. Oddný tók svo seinna um daginn þátt í nýjum flokki sem heitir Superkata þar sem keppendur 14 ára og eldri mega taka þátt, þar mætti hún eldri stúlkum og konum, m.a. þeim sem unnu follorðinsflokkana. Oddný varð 4 í sínum undanriðli og 3ja í 2.umferð og var því með réttinn að keppa um bronsið. Þar mætti hún Rebeccu Dworsky og vann Oddný hana með 22,76 stigum á móti 21,88, virkilega vel af sér staðið hjá henni að ná bronsi í svo sterkum hópi.

Svana Katla Þorsteinsdóttir keppti í kata fullorðinna, var efst eftir undanriðla en í 2.umferð þá var hún jöfn stigum í 1-2.sæti með Anne Petersen báðar með 22,76 stig, þurfti því aukaumferð til að skera úr hvor þeirra færi í úrslitaviðureignina. Dómarar mátu sem svo að Anne hefði sýnd sterkari kata í aukaviðureigninni og því var 2.sæti í 2.umferð hlutskipti Svönu og réttur til að keppa um bronsið. Þar mætti hún Katherine Strange, Svana var mjög örugg í þeirri viðureign og vann með 23,0 stigum á móti 21,86 stigum hjá Katherine og bronsið því Svönu. Svana keppti seinna um daginn í flokki Superkata (14 ára og eldri) var langefst í sínum undanriðli og efst eftir 2.umferð. Svana mætti Natascha Lauritsen í úrslitaviðureigninni en beið lægri hlut þar með 22,54 stigum á móti 23,0 stigum hjá Natascha, silfrið var því okkar í dag.

Tómas Pálmar Tómasson keppti í cadet pilta og varð í 2.sæti í sínum undanriðli auk þess að lenda í 2.sæti í 2.umferð og því bronsviðureign hans. Í þeirri viðureign mætti Tómas Anders Winther og vann Tómas með góðri kata á 22,34 stigum á móti 21,48 stigum Anders. Tómas keppti einnig í flokki Superkata, var þriðji í sínum riðli en tapaði viðureign um bronsið naumlega fyrir Mark Loytved.

Að lokum tók Þórður Jökull Henrysson þátt í tveimur flokkum, Junior og Senior. Í junior flokki þá lenti Þórður í 2.sæti í undanriðlum, sjónarmun á eftir fyrsta manni en 0,08 stigum munaði á milli þeirra, Þórður missti jafnvægið í einni tækninni og kostaði það hann stig. Í baráttunni um bronsið mætti Þórður Pashtrik Ujkani, Þórður vann þá viðureign með 23,5 stigum á móti 22,08 stigum Pashtrik. Þórði gekk einnig vel í senior flokki, var í 2.sæti í undanriðlum og einnig í 2.sæti í 2.umferð. Í viðureigninni um bronsið mætti Þórður Mats Lindhardt og sigraði Þórður hann með 22,88 stigum á móti 22,08 stigum Mads.

Frábær árangur hjá Íslenska landsliðinu í kata á þessu móti og lofar það góðu fyrir næstu misseri. Í þessum tveimur ferðum náði hópurinn í 16 verðlaun, 3 gull, 3 silfur og 10 brons.

Á meðfylgjandi mynd má sjá hópinn með verðlaun dagsins, frá vinstri Tómas, Eydís, Freyja, Oddný, Svana og Þórður.

Heilarárangur dagsins á Gladsaxe Open.

Gull í junior kvenna, Freyja Stígsdóttir
Gull í cadet kvenna, Oddný Þórarinsdóttir
Silfur í cadet kvenna, Eydís Magnea Friðriksdóttir
Silfur í Superkata kvenna, Svana Katla Þorsteinsdóttir
Brons í senior kvenna, Svana Katla Þorsteinsdóttir
Brons í senior kvenna, Freyja Stígsdóttir
Brons í senior karla, Þórður Jökull Henrysson
Brons í junior karla, Þórður Jökull Henrysson
Brons í Superkata kvenna, Oddný Þórarinsdóttir
Brons í cadet karla, Tómas Pálmar Tómasson

Heildarárangur á Gautaborg Open
Gull í junior karla, Þórður Jökull Henrysson
Silfur í junior kvenna, Freyja Stígsdóttir
Brons í senior karla, Þórður Jökull Henrysson
Brons í senior kvenna, Svana Katla Þorsteinsdóttir
Brons í cadet kvenna, Oddný Þórarinsdóttir
Brons í cadet kvenna, Eydís Magnea Friðriksdóttir

About Reinhard Reinhardsson