banner

Samuel og Aron hlutskarpastir í Helsinki

Landslið Íslands í karate tók þátt í Helsinki Karate Open um helgina. 12 keppendur frá Íslandi tóku þátt í mótinu en yfir 600 keppendur voru skráðir frá 23 löndum.

Bestum árangri í íslenska liðinu náðu þeir Samuel Josh Ramos og Aron Anh Ky Huynh. Samuel keppir í U16 ára flokki í kumite. Hann vann fimm af sex viðureignum sínum í gær, tók gullið örugglega í þyngdarflokki sínum og brons í opnum flokki. Samuel skoraði 26 stig í viðureignunum sex en fékk aðeins 6 stig á sig.

Aron vann svo silfur í bæði fullorðinsflokki og U21 árs flokki í kata. Aron vann alla andstæðinga sína í undanrásum beggja flokka og komst í úrslit. Þar laut hann í lægra haldi fyrir víetnamska landsliðsmanninum Khuat Huy Thang eftir jafnar og góðar viðureignir. Þess má geta Khuat er geysilega sterkur keppandi og vermir 9. sæti heimslistans í kata U21 árs karla.

Samuel og Aron verða næst í eldlínunni í Laugardalshöllinni 14.-15. september, þegar Ísland heldur Smáþjóðamótið í karate. Þeir hafa báðir orðið Smáþjóðameistarar í sínum greinum, Samuel árið 2018 og Aron árið 2017, og eru til alls líklegir.

Íslendingarnir unnu alls til 13 verðlauna á mótinu, 1 gull, 5 silfur og 7 brons.

Á meðfylgjandi mynd má sjá verðlaunahafana ásamt þjálfurum, frá vinstri: Helgi Jóhannesson, landsliðsþjálfari í kata; Eydís, Aron Bjarkason, Tómas, Oddný, Aron Huynh, Þórður, Samuel, Ólafur, Viktoría, og Ingólfur Snorrason, landsliðsþjálfari í kumite. Á myndina vantar Kristjönu.

Verðlaunahafar voru:
Samuel Josh Ramos, gull í -63kg og brons í opnum flokki, U16 kumite
Aron Anh Ky Huynh, silfur í U21 kata og silfur í senior kata
Viktoría Ingólfsdóttir, silfur í opnum flokki U16 kumite
Eydís Magnea Friðriksdóttir, silfur í U16 kata og brons í U18 kata
Kristjana Lind Ólafsdóttir, silfur í +59 kg flokki U18 kumite
Oddný Þórarinsdóttir, brons í U16 kata
Tómas Pálmar Tómasson, brons í U16 kata
Þórður Jökull Henrysson, brons í U18 kata
Aron Bjarkason, brons í -67 kg flokki kumite
Ólafur Engilbert Árnason, brons í -75 kg flokki kumite

About María Helga Guðmundsdóttir