banner

Freyja með silfur og brons í Helsinki

Þrír íslenskir landsliðsmenn kepptu á karatemótinu HEL Open í Helsinki í gær og unnu til fernra verðlauna. Þau Aron Bjarkason, Freyja Stígsdóttir og Hannes Hermann Mahong Magnússon æfa öll og keppa fyrir Karatefélagið Þórshamar og eru í landsliðshópi Karatesambands Íslands.

Íslensku keppendurnir með verðlaun sín. Frá vinstri: María Helga Guðmundsdóttir þjálfari, Freyja Stígsdóttir, Hannes Hermann Mahong Magnússon og Aron Bjarkason.

Bestum árangri í gær náði Freyja Stígsdóttir, sem vann silfur í kata U18 ára og brons í kata U21 árs. Í undanrásum í U18 ára hlaut hún langhæsta einkunn allra keppenda og tryggði sig inn í úrslit. Þar mætti hún erkikeppinaut sínum hér á Norðurlöndunum, sænsku landsliðskonunni Matildu Skalare. Að þessu sinni hafði Matilda betur og Freyja tók því silfrið.

Í U21-flokki munaði svo aðeins 0,04 í einkunn (af 30 mögulegum) að Freyja ynni sinn riðil og kæmist í úrslit. Hún keppti svo um bronsið við Svíann Linnéu Hederström og vann hana auðveldlega, með 23,28 stigum gegn 21,94.

Hannes Hermann Mahong Magnússon keppti í kumite U16 ára, +63 kg flokki. Í undanúrslitum vann hann Eistann Oskar Lepp og tryggði sér sæti í úrslitum. Þar mætti hann heimamanninum Ben Parikka. Eftir líflega viðureign hafði Finninn betur, 3–1, og var Hannes því silfurverðlaunahafi í flokknum.

Aron Bjarkason keppti bæði í kumite og kata U21 árs. Í jöfnum og sterkum undanriðli munaði aðeins 0,26 stigum að Aron kæmist áfram í bronsviðureign, en það varð ekki úr í dag. Í kumite -60 kg flokki hlaut Aron bronsverðlaun eftir bardaga við finnska og sænska unglingalandsliðsmenn.

Næst verða Aron, Hannes og Freyja í eldlínunni á Reykjavíkurleikunum í Laugardalshöll 26. janúar. Freyja verður svo í liði Íslands á Evrópumeistaramótinu í kata í byrjun febrúar.

About María Helga Guðmundsdóttir