banner

Minningarorð um Magnús Eyjólfsson

Magnús Kr. Eyjólfsson, landsliðsþjálfari í kata, lést 15. ágúst 2025 og var jarðsunginn 27. ágúst 2025. Fjöldi karatefólks festi minningarorð um hann á blað við þetta tilefni og hefur þeim verið safnað saman hér. Minning um góðan félaga, leiðtoga og fyrirmynd lifir í hjörtum okkar.

*****

Ömurlegar fréttir berast. Kær vinur, góður drengur og frábær karatemaður, er látinn, langt fyrir aldur fram.

Maggi var svo hlýr og öruggur í fasi að öllum leið vel í kringum hann. Náttúrulegur leiðtogi með skýra sýn og þögla árvekni og styrk. Þannig dróst fólk að honum og hann var auðveldlega í broddi fylkingar sem fór honum vel, algerlega án tilgerðar eða hroka.

Sem æfinga- og liðsfélagi var hann einn af þeim allra bestu. Áskorun. Hvetjandi og drífandi. Fyrirmynd og innblástur. Hrikalegur haukur í horni.

Í samtali kom hann oft með einmitt réttu orðin á réttum tíma fyrir mig. Kannski olli þetta allt því að mig langaði að vera frænka hans. Ég beit það í mig fyrir einhverjum áratugum síðan að við værum skyld, og ég kallaði hann alltaf frænda, sem hann svaraði góðlátlega á sama máta. Það liðu mörg ár þar til hann spurði mig einlægt hvort ég héldi í alvöru að værum skyld. Ég hváði opinmynnt og játti því. Hann hafði auðvitað flett því upp og tjáði mér glottandi að svo væri ekki, en benti á að við værum auðvitað skyld í karatespirit, sem væri eiginlega mikilvægara. Svo viðurnefnin héldust.

Elsku Maggi. Ég er stödd í Istanbul með ungum íþróttakonum að keppa fyrir Íslands hönd. Við eigum leik í dag þar sem við munum berjast eins og ljón og vera landi og þjóð til sóma. Eins og þú og í þínum anda. Þér til heiðurs.

Takk fyrir allt frændi. Sjáumst í sumarlandinu og tökum æfingu.

Elsku Kristín og aðrir aðstandendur, ég votta ykkur mína dýpstu samúð og sendi kærleik og styrk ykkar leið. 

Edda Blöndal

*****

Það bárust sorglegar fréttir fyrir nokkrum dögum af landsliðsþjálfara okkar í kata, Magga Eyjólfs. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans eftir stutt veikindi.

Ég kynntist Magga fyrst í gegnum karate, en við urðum nánari á árunum 2010–2014 þegar ég var landsliðsþjálfari í kumite og hann í kata. Hann var einstaklega góður félagi, þjálfari og manneskja, og hans verður sárt saknað.

Fjölskyldu hans og vinum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Gunnlaugur Sigurðsson

*****

Mikil sorg kom yfir mig þegar ég fékk fréttirnar að Magnús væri fallinn frá, ég hafði heyrt af snöggum veikindum hans og var illa brugðið við það.

Við Maggi höfðum þekkst í yfir 35 ár í gegnum karate, kepptum á móti hvor öðrum fyrstu árin en seinna æfðum við, þjálfuðum og kepptum saman með Breiðablik. Við tókum báðir þátt í að byggja karatedeild Breiðabliks aftur upp eftir að Magnús kom þar inn upp úr 2001 og ég kom til baka um 2004, tókum þátt í því góða starfi ásamt öðru fólki, hægt og býtandi þar sem við lögðum mikla áherslu á unglingastarf með keppni í huga.  Saman náðum við góðum árangri og skiluðum af okkur mörgu frábæru karatefólki og góðum einstaklingum. Stór partur af því var hversu samstíga við Maggi vorum í nálgun okkar á því karate sem við vildum sjá hjá iðkendum okkar. Keppni var höfð að leiðarljósi og ein af stóru stundum okkar var þegar landsliðið varð norðurlandameistarar í hópkata 2012, allt skipað nemendum okkar Magga. Minnistæðar voru allar þær keppnisferðir sem við fórum með Breiðablik og landsliðinu, en Magnús var landsliðsþjálfari í kata 2011-2017 á sama tíma og ég var yfirþjálfari í Breiðablik.

Við ræddum mikið saman um iðkendur og leituðum ráða hjá hvor öðrum. Það skipti í raun ekki um hvað við ræddum, alltaf gátum við komið með lausnir á þeim vandamálum sem við stóðum frammi fyrir og Maggi var mjög oft með góðar lausnir og nálgun sem við nýttum okkur. Það sama var upp á teningnum þegar ég var orðinn landsliðsþjálfari, alltaf gat ég leitað til Magga um góð ráð varðandi keppendur og fékk oft á tíðum aðstoð hans við mat á þeim. Það sama átti svo við þegar Maggi tók aftur við landsliðinu 2022, síðast ræddum við þessi mál í ferð okkar saman til Andorra á Smáþjóðaleikana núna í maí. Við ræddum oft síðustu misserin að við ættum nú að endurtaka leikinn og taka upp þjálfun saman með keppni í huga, en því miður náðum við því ekki út af ýmsum ástæðum.

Það eru þung spor sem fjölskylda Magga tekur í dag þegar við fylgjum honum síðustu skrefin og er hugurinn minn hjá þeim. Hugur minn leitar einnig til þeirra margra góðra stunda sem við áttum á flakki okkar með karate í gegnum árin, stundir sem voru virkilega góðar, alltaf var Maggi reiðubúinn í spjall og pælingar um karate.

Um leið og ég votta fjölskyldu Magga mínar dýpstu samúðarkveðjur, þá vil ég þakka fyrir þá vináttu sem hann sýndi mér í gegnum árin. Minning um góðan pilt mun lifa með okkur.

Helgi Jóhannesson

*****

Við Maggi áttum langt samtal í kringum aldamótin sem varð til þess að Maggi tók fram karategallann aftur og hóf að þjálfa fyrir og með okkur í Karatedeild Breiðabliks þar sem ég var lengi formaður, iðkandi og já þjálfari (barna). Við áttum margar gæðastundir saman í kringum íþróttina sem nú rifjast allar upp við ótímabært andlát okkar frábæra félaga. Okkur í félagi við góða menn og konur tókst að gera karatedeildina að fjölmennustu deild landsins með ákaflega fjölbreytt og skemmtilegt starf. Allar æfingarnar, æfingabúðirnar innan lands og utan. Öll mótin hér heima og erlendis. Börnin okkar að æfa og keppa í karate. Allt var þetta gert af lífi og sál og Maggi átti svo sannarlega mikla karatesál og vissi allt um það sem skipti máli.

Ég held að ég hafi aldrei þekkt nokkurn mann sem var eins fljótur að koma sér í keppnisform. Maggi gat ákveðið með stuttum fyrirvara að taka þátt í móti og standa sig svo frábærlega á mótinu og jafnvel vinna.

Sendi aðstandendum öllum innilegar samúðarkveðjur og styrk á þessum erfiða tíma.

Indriði Jónsson

*****

Ég man svo vel eftir fyrstu landsliðsferðinni minni aftur eftir covid. Það var á smáþjóðamótið í Liechtenstein 2022. Þá var Maggi aftur orðinn kata landsliðsþjálfari. Ég man að eftir ferðina hugsaði ég bara „hver var eiginlega þessi sem að var svona næs og almennilegur við mig?“ Þá var það Maggi. Og síðan þá hefur mér alltaf þótt rosalega vænt um hann og haft gaman af því að spjalla við hann. Hann var einstaklega góð manneskja. Ef þú myndir leita að þeim orðum í orðabók, þá kæmi upp mynd af Magga sem skilgreining á góðri manneskju. Hann smitaði svo frá sér góðri orku. Það var alltaf svo gaman að sjá hvað hann var stoltur af öllum sem að hann þjálfaði, sama hvort það var í Blikum eða landsliðinu, deildi alltaf endalaust af myndum og færslum.

Hugur minn er með fjölskyldu hans.

Ísold Klara Felixdóttir

*****

Ég man fyrst eftir Magga á karateæfingum í Þórshamri skömmu eftir aldamót. Þá var ég eitt af nokkrum krakkaskottum sem fengu að æfa með mörgu af öflugasta karatefólki landsins. Þegar Maggi kíkti á æfingar til okkar ofan úr Breiðabliki var hann einn af þeim sem maður tók óhjákvæmilega eftir: einbeittur, yfirvegaður og afar fær. Ég þekkti hann í raun ekkert, en samt varð hann strax fyrirmynd sem ég og við bárum ósjálfrátt virðingu fyrir.

Sú virðing jókst og dýpkaði þegar ég kynntist Magga betur á fullorðinsárum, sem iðkandi í landsliðinu undir hans stjórn og í margvíslegri aðkomu okkar beggja að karate á Íslandi. Yfirvegun hans, sem var mér svo minnisstæð frá því áður, var aðeins einn þáttur í hans rólegu og góðu nærveru; hann hafði alveg einstaka blöndu af hógværð og sjálfsöryggi, heilsteyptur, traustur og hlýr. Hann hafði trú á okkur sem æfðum undir hans stjórn, var þolinmóður og sanngjarn, sló þó ekkert af væntingunum til okkar – og var tilbúinn að gefa þeim tækifæri sem sýndu rétta hugarfarið, tækifæri sem oftar en ekki báru ávöxt með hans góðu hjálp. Árin liðu og hlutverkin breyttust, en alltaf var gott að hitta Magga, æfa með honum, ræða við hann og heyra hans skýru og jarðbundnu sýn á hlutina.

Ég hitti Magga síðast í vor, þar sem við kenndum saman á hátíðaræfingum vegna afmælis Karatesambandsins. Sú samvinna var hvorki fyrirfram skipulögð né undirbúin, en gekk fullkomlega áreynslulaust fyrir sig – því Maggi var alltaf jafn fróður og kunnáttusamur, góður leiðtogi og kennari og átti ekki í minnstu vandræðum með að aðlagast óvæntum aðstæðum. Í dag er ég enn þakklátari en ég var fyrir að við skyldum óvænt fá að vinna saman við þetta tækifæri.

Það er óraunveruleg tilhugsun að Maggi sé nú látinn, allt of snemma. Karatesamfélagið á Íslandi kveður einn af sínum bestu mönnum – einn af þeim sem minna okkur á að góður karatemaður er, í grunninn, góð manneskja. Mikill er missir fjölskyldu hans og ástvina; þeim votta ég mína dýpstu samúð.

María Helga Guðmundsdóttir

*****

Í dag kvaddi ég einstakan mann í hinsta sinn, mann sem mér þótti svo vænt um

Maggi skipti mig ótrúlega miklu máli og var risastór hluti af lífi mínu síðastliðin ár. Hann var svo miklu meira en bara þjálfarinn minn.

Stuttu eftir að ég kynntist Magga tók við erfiður tímapunktur í lífi mínu sem varð til þess að ég var óviss hvort ég ætlaði að halda áfram í íþróttinni sem ég dýrkaði svo heitt. Maggi greip mig þegar mér fannst allt vera að hrynja í kringum mig og hjálpaði mér að finna ástríðuna fyrir íþróttinni minni aftur. Fyrir það er ég honum ævinlega þakklát.

Einnig er ég þakklát fyrir að hafa fengið að upplifa allar landsliðsferðirnar, æfingarnar, samtölin, faðmlögin, þolinmæðina, hughreystingarnar og trúna sem hann hafði alltaf á mér. Ég hef unnið mína stærstu sigra með hann mér við hlið og hann tók á móti mér með faðmlagi og fallegum orðum þegar mér hefur mistekist. Hann þjálfaði með hjartanu og kenndi mér svo miklu meira en bara karate.

Maggi snerti hjörtu margra, því hann var góður maður sem vildi öllum vel, einlægur og gaf alltaf af sér. Við í karate samfélaginu erum heppin að hafa fengið að eiga hann að.

Hugur minn er hjá elsku fjölskyldu hans, hann talaði reglulega um fjölskyldu sína og maður sá langar leiðir hversu mikið hann elskaði þau. Ég get ekki ímyndað mér þann missi sem þau standa frammi fyrir og votta ég þeim mína dýpstu samúð

Elsku Maggi, takk fyrir allt. Minningin um þig mun fylgja mér um ókomin ár.

Hvíldu í friði.

Una Borg Garðarsdóttir

About María Helga Guðmundsdóttir