Karatekona og karatemaður ársins 2012
Stjórn Karatesambands Íslands hefur útnefnt eftirfarandi karatekonu og karatemann ársins 2012.
Aðalheiður Rósa Harðardóttir, Karatedeild Breiðabliks
Aðalheiður Rósa hefur verið fastur meðlimur landsliðs Íslands í kata undanfarin ár og tekið þátt í fjölda móta á erlendis með góðum árangri. Fremst ber að telja árangur hennar á Heimsmeistaramótinu í karate, í nóvember 2012, þar sem hún hafnaði í 9-16.sæti af 51 keppenda, eftir að hafa unnið í fyrstu 2 umferðum og komst í 3ju umferðina á mótinu. Að auki þá náði Aðalheiður mjög góðum árangri á Banzai Cup sem er mjög sterkt mót í þýskalandi auk þess sem hún tók þátt í Evrópumeistaramóti unglinga sem fór fram í Baku, Azerbaitjan, í febrúar á þessu ári.
Stærsta stund Aðalheiðar á þessu ári var á Norðurlandameistaramótinu í karate þegar hún ásamt liðsfélögum sínum lönduðu Norðurlandameistaratitli í hópkata og um leið fyrsta norðurlandameistaratitli í sveitakeppni í karate sem Ísland hefur eignast. Aðalheiður Rósa er nú í 46.sæti á heimslista WKF yfir keppendur í kata kvenna.
Helstu afrek Aðalheiðar Rósa á árinu 2012 voru;
1. Norðurlandameistari í hópkata
2. Íslandsmeistari í einstaklingskata
3. Íslandsmeistari í hópkata
4. 5.sæti í kata kvenna á Banzai Cup, þýskalandi
5. 9-16.sæti í kata kvenna á Heimsmeistaramóti í París 2012 (af 51 keppanda)
6. 46.sæti á heimslista yfir keppendur í kata kvenna
Aðalheiður hefur verið nær ósigrandi í kata hér á landi sem sýnir hversu mögnuð íþróttakona hún er.
Kristján Helgi Carrasco, Karatedeild Víkings
Kristján Helgi hefur vaxið sem karatemaður hvert ár og var árið 2012 engin undantekning. Kristján Helgi keppir bæði í kata og kumite og hefur verið nær ósigrandi á þessu ári í báðum flokkum. Hann er bikarmeistari eftir að hafa leitt hvert bikarmót á fætur öðru og lét forystu sína aldrei af hendi frá fyrsta mótinu. Kristján Helgi er fjórfaldur Íslandsmeistari sem er einstakur árangur hjá svo ungum íþróttamanni, en titlarnir eru bæði í einstaklingsflokkum sem og í liðakeppni. Kristján Helgi hefur verið fastur landsliðsmaður í karate síðustu ár og tekið þátt í flestum þeim verkefnum sem landsliðið hefur staðið fyrir á árinu.
Helstu afrek Kristjáns Helga á árinu 2012 voru;
1. Bikarmeistari karla 2011-2012
2. Íslandsmeistari í kata karla
3. Íslandsmeistari í kumite, opnum flokki
4. Íslandsmeistari í kumite –75kg
5. Íslandsmeistari kumite, sveitakeppni karla
Kristján Helgi er því verðugur fulltrúi karatehreyfingarinnar og mikil fyrirmynd fyrir ungt íþróttafólk.