banner

1 silfur og 6 brons á smáþjóðamótinu

Eitt silfur og 6 brons á Smáþjóðamótinu í karate

Fyrsta smáþjóðamótið í karate var haldið í Lúxemborg laugardaginn 20.september.  Sjö þjóðir sendu keppendur til leiks og voru þeir um 240 talsins.  Ísland vann til einna silfurverðlauna og sex bronsverðlauna á mótinu.  Bestum árangri íslenskra keppenda náði Telma Rut Frímannsdóttir er hún vann til silfurverðlauna í opnum flokki í kumite kvenna.  Í fyrstu umferð mætti Telma Sonju Steland frá Lúxemborg sem hún vann 3-1, í annarri umferð mætti hún annarri stúlku frá Lúxemborg, Polu Giorgetti, og vann Telma nokkuð öruggt 4-0.  Í úrslitum mætti Telma Söndru Herver frá Andorra, sem eftir mjög harða og spennandi bardaga endaði sem sigurvegari með 5 stig á móti 3 stigum Telmu. Telma hafði leitt bardagann um tíma í stöðunni 3-2, en Sandra náði stigum á Telmu í lok viðureignar.  Þessi árangur Telmu gefur góðar vonir fyrir næsta verkefni hennar sem verður Heimsmeistaramótið í Þýskalandi í byrjun nóvember.

KAI_Smathodaleikar_2014_Telma_Rut

Að öðrum úrslitum í fullorðinsflokkum má helst nefna að í kata fullorðinna vann Svana Katla Þorsteinsdóttir til bronsverðlauna eftir að hafa unnið Vanessu Fabbri frá San Marínó í bardaganum um þriðja sætið.  Jóhannes Gauti Óttarsson keppti í kumite -75kg þar sem hann mætti Michalis Machallekides frá Kýpur í fyrstu umferð, sú viðureign lauk með sigri Michalis 3-0 en hann vann svo flokkinn.  Jóhannes fékk því uppreisn og tækifæri til að berjast um 3ja sætið en andstæðingur hans mætti ekki svo bronsið var Jóhannesar. Elías Snorrason og Bogi Benediktsson kepptu í kata fullorðinna en töpuðu báðir í fyrstu umferð, Elías fékk svo uppreisnarviðureign um réttinn til að keppa um 3ja sætið en tapaði þar á móti Arnold Chep frá Mónakó.

Edda Kristín Óttarsdóttir átti einnig góðan dag í kumite unglinga -54kg, þar sem hún vann Svenja hoffman í fyrstu umferð 6-3 en í undanúrslitum mætti hún Kimberly Nelting og fór sú viðureign 4-4 og því kom til dómaraúrskurðar. Kimberly vann viðureignina með dómarúrskurði 3-2 og bronsið því hlutskipti Eddu í dag, þetta eru önnur alþjóðlegu verðlaun Eddu á árinu þar sem hún vann einnig brons á Norðurlandamótinu sem haldið var í apríl. Í flokki unglinga +54 kg áttu við tvo keppendur, Laufey Lind Sigþórsdóttur og Katínu Ingunni Björnsdóttur.  Katrín fór létt með sinn fyrsta andstæðing, Karyofilia Englezou frá Kýpur, þar sem Katrín sigraði 8-0 en í undanúrslitum tapaði hún fyrir Allison Berna frá Lúxemborg 3-2 og endaði með brons í þessum flokk sem og Laufey sem tapa sinni viðureign gegn Mallea Noll frá Lúxemborg 4-0. Þær stöllur, Edda, Katrín og Laufey kepptu svo í liðakeppni unglinga þar sem þær mættu liði frá Lúxemborg, viðureignin endaði með sigri Lúxemborg og fengu stúlkurnar því brons í liðakeppni.  Bogi Benediktsson og Laufey Lind Sigþórsdóttir kepptu svo í kata unglinga en töpuðu bæði í fyrstu umferð, Bogi fékk uppreisn og keppti um 3ja sætið við Pierre Pirotte frá Lúxemborg en beið lægri hlut.

Verðlaunahafar
Silfur í kumite opinn flokkur      Telma Rut Frímannsdóttir
Brons í kata kvenna                   Svana Katla Þorsteinsdóttir
Brons í kumite -75kg                 Jóhannes Gauti Óttarsson
Brons í kumite unglinga -54kg    Edda Kristín Óttarsdóttir
Brons í kumite unglinga +54kg   Katrín Ingunn Björnsdóttir
Brons í kumite unglinga +54kg   Laufey Lind Sigþórsdóttir
Brons í sveitakeppni unglinga    Edda Kristín, Katrín Ingunn, Laufey Lind

Á meðfylgjandi mynd má sjá hópinn, frá vinstri Gunnlaugur þjálfari, Telma Rut, Jóhannes Gauti, Svana Katla, Elías, Edda Kristín, Katrín Ingunn, Laufey Lind, Bogi og Magnús þjálfari.

KAI_Smathodaleikar_2014_Islenski_hopurinn

About Helgi Jóhannesson