banner

Fylkir vann Íslandsmótið í kumite með yfirburðum

Íslandsmótið í kumite, bardagahluta karate, fór fram í Fylkishöllinni í Árbænum laugardaginn 18. nóvember. Fylkir fékk flest stig í heildarstigakeppninni en sex félög áttu fulltrúa á mótinu.

Í opnum flokki karla mættust Fylkis-mennirnir Máni Karl Guðmundsson og Ólafur Engilbert Árnason í úrslitum og þar hafði Máni Karl betur. Kvennamegin mættust þær María Helga Guðmundsdóttir, Þórshamri, og Telma Rut Frímannsdóttir, Aftureldingu. María Helga hafði betur í opna flokknum en Telma Rut vann hins vegar plús 61 kg flokkinn eftir úrslitaeinvígi gegn Katrínu Ingunni Björnsdóttur, Fylki.

Tveir keppendur voru skráðir til leiks í mínus 61 kg flokki kvenna, þær Iveta Ivanova og María Helga Guðmundsdóttir, og þar hafði Iveta betur. Sama var uppi á teningnum í mínus 67 kg flokki karla. Aron Bjarkason, Þórshamri, og Máni Karl Guðmundsson, Fylki, voru einu tveir keppendurnir í þyngdarflokknum og þar hafði Máni betur gegn Aroni.

Í mínus 75 kg flokki karla vann Ágúst Heiðar Sveinbjörnsson, Fylki, Ólafur Engilbert Árnason, Fylki, varð annar og Helgi Heiðar Steinarsson, KFR, þriðji. Jón Ingi Þorvaldsson, Þórshamri, vann svo plús 84 kg flokkinn en Þorsteinn Freygarðsson, Fylki, varð annar.

Fylkir vann heildarstigakeppnina með yfirburðum. Liðið fékk 29 stig í heildina, Þórshamar fékk 16 stig, Afturelding 5 stig og Breiðablik 2 stig. KFR og KFA fengu svo eitt stig hvort.

Íslandsmeistarar í kumite 2017

Íslandsmeistarar í opnum flokkum karla og kvenna 2017

Heildarúrslitin

About Reinhard Reinhardsson