banner

Smáþjóðamót Evrópu í karate

Sjötta Smáþjóðamót Evrópu í karate fer fram dagana 14. og 15. september næstkomandi í Laugardalshöll. Auk Íslands senda sex af smáþjóðum Evrópu keppendur á mótið, sem er haldið í fyrsta sinn á Íslandi: Kýpur, Lúxemborg, Malta, San Marínó, Mónakó og Liechtenstein.

218 keppendur eru skráðir til leiks en alls eru 353 skráningar. Keppt er í einstaklings- og liðakeppni í kata og kumite. Ísland teflir fram stærsta landsliðshópi sínum til þessa, með yfir 70 keppendum. Allt fremsta landsliðsfólk og unglingalandsliðsfólk Íslands tekur þátt í mótinu, auk efnilegra keppenda sem boðið hefur verið að keppa fyrir Íslands hönd. Í fyrra unnu Íslendingar til 23 verðlauna á mótinu og er stefnan sett á enn betri árangur á heimavelli.

Meðal keppenda eru allir þrír Smáþjóðameistarar Íslands. Samuel Josh Ramos á titil að verja í kumite 14-15 ára pilta, -63 kg, en hann sigraði flokkinn örugglega í fyrra í San Marínó. Iveta Ivanova keppir í fyrsta sinn í fullorðinsflokki í kumite eftir að hafa unnið tvöfalt í flokki 16-17 ára stúlkna árin 2017 og ’18. Þá varð Aron Anh Ky Huynh Smáþjóðameistari í kata 16-17 ára pilta árið 2017 og lenti í 3. sæti í fullorðinsflokki árið 2018. Auk þeirra keppir fjöldi ríkjandi Íslandsmeistara, bæði í fullorðins- og unglingaflokkum.

Mótið hefst kl. 9.00 á laugardag með keppni í kata og heldur síðan áfram eftir setningarhátíð í hádeginu með keppni í kumite. Á sunnudag hefst liðakeppni í kata kl. 9.30 og liðakeppni í kumite hefst kl. 9.30. Áætluð mótslok eru um kl. 15.00. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.

Íslenski landsliðshópurinn í kumite.

Íslenski landsliðshópurinn í kata.

About Reinhard Reinhardsson