banner

Opið bréf til Karatefélags Reykjavíkur

Reykjavík 5.febrúar 2022

Opið bréf til Karatefélags Reykjavíkur

Efni: Framkoma þjálfara og keppenda

Efni þessa bréfs er athugasemdir sem Dómaranefnd Karatesambands Íslands (KAÍ) hefur gagnvart hegðun þjálfara og keppenda hjá Karatefélagi Reykjavíkur (KFR) á karatemóti sem haldið var sem hluti af Reykjavík International Games (RIG) sunnudaginn 30.janúar síðastliðinn. Dómaranefnd KAÍ hittist á fundi föstudaginn 4.febrúar til að fara yfir Karatekeppni RIG og þau atvik sem þar komu upp. Meðal annars framkoma þjálfara og keppenda frá KFR sem á þeim tímapunkti sátu á meðal áhorfenda.

Um er að ræða bardaga í flokki 13 ára stúlkna þar sem annar keppandinn er frá KFR, þetta var næst síðasti bardaginn á mótinu og sá síðasti sem keppandi frá KFR átti hlut að máli. Í umræddum bardaga stigmögnuðust hróp og köll frá öðrum keppendum KFR, sem beindu hrópum sínum að dómurum í viðureigninni með miður skemmtilegu orðavali. Í lok viðureignar vék þjálfari KFR að einum dómara og hrópaði á hann, viðkomandi þjálfari lét ekki að hegðun sinni þar til yfirdómari mótsins vísaði honum í burtu af svæðinu.
Það er alveg klárt mál að agi og virðing, sem karate gengur út á, var ekki til staðar hjá keppendum og þjálfara KFR. Það sem er ennþá verra er að þetta er að hluta til landsliðsfólk sem eiga hlut í máli og eiga að vera ákveðnar fyrirmyndir fyrir aðra keppendur. Hvernig eiga dómarar að sýna þessum keppendum virðingu þegar þeir eru með neikvæðar athugasemdir og hróp að dómurum um leið og þessir keppendur eru komnir af keppnisvellinum?

Dómaranefndin ræddi tvo möguleika. Að vísa málinu til Aganefndar KAÍ eða að skrifa opið bréf. Niðurstaðan var sú að skrifa opið bréf og óska eftir birtingu á heimasíðu KAÍ, þar sem þetta snertir marga aðila úr fjölda karatefélaga og vill Dómaranefndin sýna að hún taki þessa hegðun alvarlega, og um leið gera karateheimi það ljóst að Dómaranefndin getur ekki setið hjá þegar vegið er svona hressilega að dómurum í karate. Hegðun sem lýst er hér að framan hefur verið að stigmagnast síðustu misseri, sem við í Dómaranefnd teljum hluta af þeirri skýringu, af hverju sjálfboðaliðar vilji ekki taka þátt í dómgæslu þegar þeir eiga von á að hróp og köll verði gerð að þeim við störf sín. Þetta er þróun sem Dómaranefnd hugnast ekki og er að hluta til vandamál í öðrum íþróttagreinum en lengi vel var ekki til staðar í Karate.

Í keppnisreglum WKF, kafla 8 um bannað athæfi kemur fram í skýringu nr.14; „Sérhver ókurteis hegðun frá meðlimi opinberrar sendinefndar getur valdið því að keppanda, sveit eða öll sendinefndin sé dæmd frá keppni.“ Í því samhengi myndi refsingin verða efsta stig refsingar SHIKKAKU, sem er brottvísun frá yfirstandandi móti, keppni eða bardaga. Allur árangur á viðkomandi móti myndi þá þurrkast út eins og ef viðkomandi keppandi eða félag hefði ekki mætt til keppni.
Dómaranefnd ræddi það, að í raun hefði þessi hegðun sem keppendur og þjálfari KFR sýndu verið grundvöllur fyrir SHIKKAKU á keppandann í viðkomandi bardaga. Þessari refsingu hefur ekki verið beitt hér á landi í langan tíma og því er Dómaranefnd treg til að beita henni.

Með þessu bréfi vonum við að þessari þróun verði snúið við og allir keppendur, þjálfara og aðrir sem koma að mótum í karate geti sýnt hvor öðru tilhlíðilega virðingu.

Dómaranefnd KAÍ
Helgi Jóhannesson, formaður
Kristján Ó. Davíðsson
Pétur Freyr Ragnarsson

——
Bréfið var sent til stjórnar KAÍ sem tók það fyrir á fundi sínum 9. febrúar 2022 og samþykkti að það yrði birt á vef sambandsins.

About Reinhard Reinhardsson